Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:02:38 (4923)

1998-03-19 14:02:38# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er mikill snillingur í því að taka orð manna og barna þau. Ég held að engin þörf sé á því eða ástæða til að reyna neitt að draga saman í eina setningu það sem ég hef sagt í þessum málum bæði hér áðan og fyrr. Það liggur nokkuð ljóst fyrir hver afstaða mín er. Ég gagnrýni hugmyndina eins og hún leggur sig. Að sjálfsögðu berum við hlýjan hug til Eystrasaltsþjóðanna og viljum gjarnan leggja þeim lið í að byggja upp sjálfstæði sitt og öryggi en það verður að líta á þá hluti alla í heildarsamhengi.

Jafnvel þó svo að t.d. eitt af Eystrasaltsríkjunum hefði verið tekið með eða tvö, eða þess vegna þau öll, hefðu einhver önnur ríki orðið eftir. Þess vegna Búlgaría eða Rúmenía eða einhver önnur. Ég hef ósköp einfaldlega verið að benda á að þessi hugmyndafræði, að taka suma með og aðra ekki er röng. Við eigum að reyna að leita heildstæðra lausna sem hafa ekki í sér fólginn þann áhættuflöt sem hefur verið í öryggismálum Evrópu alla þessa öld og auðvitað lengur, að það eru einhver landamæri, einhver mörk, einhverjir múrar eða girðingar eða línur. Þá skiptir ekki öllu máli fyrir heildarsamhengið, hvoru megin einn eða annar liggur. Það er eðlilega og skiljanlega mikið mál fyrir viðkomandi ríki og ég held að allir skilji hvers vegna ríkin í austanverðri Evrópu lögðu allt kapp á að reyna að komast þarna undir til þess að komast undir vernd og koma öryggismálum sínum, öryggi sínu ef svo má segja á ábyrgð hinna vestrænu stórvelda. Gera þau ábyrg fyrir öryggi sínu. Það er ósköp skiljanlegt að menn sáu þann kost sem mjög freistandi og traustastan og vildu drífa í því í hvelli. Af hverju vildu þeir drífa í því í hvelli? Af því að þeir óttuðust bakslag.

Þá er komið að því sem ég hef verið að segja: Er ekki þessi aðgerð einmitt hættuleg vegna þess að hún gæti ásamt með fleiru orðið til þess að slíkt bakslag yrði? Menn verða að skoða hlutina í heildarsamhengi. Ekki er hægt að líta á þetta einangrað og það er enn síður hægt að nota hugtakið ,,sjálfsákvörðunarréttur þjóða`` með þeim hætti sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði fyrr í umræðunni.