Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:07:14 (4925)

1998-03-19 14:07:14# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig erum við að endurtaka okkur og ég vísa til þess sem ég hef áður sagt, að það sem ég hef talað fyrir eru heildstæðar lausnir þar sem öll ríkin væru með en ekki fáein eða sum valin út úr. Sú mótsögn blasir auðvitað við í málflutningi bæði hæstv. utanrrh. og fleiri hv. þm. þegar þeir tala fjálglega um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og allt það, að um leið og ákveðin ríki eru valin inn í klúbbinn er öðrum neitað. Hvað þá með sjálfsákvörðunarrétt þeirra þjóða? Er hann þá ekki jafngildur Eystrasaltsríkjanna eða annarra slíkra þjóða? Gallinn á þessari aðferð blasir við. Ég skil ekki af hverju það er svona viðkvæmt að ræða það eins og það er. Það er ekki þar með sagt að auðvitað var eðlilegt að menn leituðu einhverra lausna og það fljótt í kjölfar þeirra miklu breytinga og þess umróts sem varð í Evrópu eftir upplausn Sovétríkjanna og fall Berlínarmúrsins.

Ég er þeirrar skoðunar að heildstæðar lausnir á vettvangi samtaka eins og ÖSE þar sem allar þjóðirnar eru með, allar Evrópuþjóðir. Það er eina öryggismálasamstarfið af þessu tagi þar sem öll sjálfstæði ríki eru með, líka hlutlausu ríkin og öll fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna o.s.frv.

Ástæðan fyrir því að ÖSE og Sameinuðu þjóðirnar fyrir sitt leyti hafa ekki náð að vera þær sterku stofnanir á sviði öryggisgæslu eða til að setja niður deilur eða átök eins og raun ber vitni er náttúrlega sú að stórveldin hafa ekki viljað að menn fengju framkvæmdarvald á þeim vettvangi. Þeir hafa haldið því að sér og neitað að þær stofnanir fengju slíkt afl og þetta vita menn vegna þess að því fylgir mikið vald að ráða yfir hernum. Bandaríkjamenn segja það fullum fetum nú að þeir séu hin eina alheimslögregla eftir að Sovétríkin liðu undir lok. Það held ég að sé ekki heppilegt og skynsamlegt kerfi.

Að lokum, herra forseti, vísa ég m.a. til þeirrar miklu gagnrýni sem orðið hefur vart í Rússlandi og fleiri lýðveldum fyrrverandi Sovétríkja að miklu minna hafi orðið úr efndum á þeim loforðum og vilyrðum sem þessum ríkjum voru gefin í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna. Það hafi staðið mjög á efndunum. En það stóð ekki á fallegu fyrirheitunum fyrst eftir að þær breytingar urðu.