Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:09:44 (4926)

1998-03-19 14:09:44# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að Atlantshafsbandalagið hefur ekki neitað einu einasta ríki um inngöngu í Atlantshafsbandalagið sem hefur sótt um inngöngu þar. Það er verið að vinna að því að þessi ríki geti gengið inn í Atlantshafsbandalagið á komandi árum án þess að það sé á nokkurn hátt tímasett. Það er því ekki rétt hjá hv. þm. Mér heyrist hins vegar að það sé skoðun hans að hann vilji halda öllum þessum ríkjum utan Atlantshafsbandalagsins hvað svo sem þau vilja. Hann telur að jafnvel þó að það sé mat manna að ríki eins og Pólland, eins og Tékkland og Ungverjaland séu talin fyllilega hæf og reiðubúin til að ganga til þessa samstarfs þá skuli neita þeim. Það skuli heldur ekki unnið að því að aðstoða Eystrasaltsríkin, önnur ríki Mið- og Austur-Evrópu við að ganga í Atlantshafsbandalagið í framtíðinni. Það er stefna Atlantshafsbandalagsins að þessi ríki geti öll gengið inn.

Það er alveg ljóst að það verða að liggja þar til grundvallar ákveðnar forsendur. Atlantshafsbandalagið ræður því miður ekki við það að taka öll ríkin inn í sama vetfangi, það er augljós staðreynd. Á sama tími er verið að auka samstarf við þau ríki sem óska ekki eftir því að ganga þarna inn, eins og hlutlausu ríkin, Svíþjóð, Finnland, Austurríki, Rússland og Úkraínu. Vel má vera að sá dagur komi að þessi ríki vilji ganga inn. Að sjálfsögðu er ekkert vit í því að leggja niður Atlantshafsbandalagið. Við vitum hvað við eigum og við eigum þessu samstarfi mikið að þakka. Ég tel að það hafi ráðið úrslitum um lýðræðisþróunina í Evrópu. Hvaða vit er í því að leggja það niður sem hefur reynst okkur jafn vel og áhugi er jafnmikill alls staðar í Evrópu um að efla?