Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:12:08 (4927)

1998-03-19 14:12:08# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hallast að því við að hlusta á hæstv. utanrrh. svara að vandinn í umræðunni sé sá að hæstv. ráðherra fæst ekki til að ræða málin út frá neinu öðru en því að það hafi aðeins verið um tvennt að ræða, stækkun NATO eða ekki neitt. Út af fyrir sig verður bara að hafa það að hæstv. ráðherra fæst alls ekki til þess að taka það með í reikninginn, taka það inn í myndina að Evrópa kunni að hafa staðið frammi fyrir fleiri kostum. Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess hversu mikil umræða hefur víða farið fram um kosti og galla þess, meðal annars innan NATO. Hefur hæstv. utanrrh. gleymt því að um þetta fór fram mjög mikil umræða innan NATO og það var ekki fyrr en 1994 sem þar varð loksins niðurstaða að NATO ætti að standa opið nýjum aðildarríkjum?

Af hverju var umræðan svona mikil? Jú, vegna þess að menn auðvitað áttuðu sig á því 1989 og á því árabili að það voru að koma upp nýjar og gjörbreyttar aðstæður í Evrópu og í raun og veru í heimsmálunum og þá fóru menn náttúrlega yfir stöðuna. Í Bandaríkjunum er enn mikil umræða um það sem hæstv. utanrrh. virðist ekki hafa heyrt af, og er eins og hæstv. utanrrh. viti ekki af því að stjórnmálasamband er við Bandaríkin. Enn þá er mikil umræða í Bandaríkjunum um það hvort þessi leið sé skynsamleg o.s.frv. (Gripið fram í.) Það þarf ekki bara einhverja vinstri menn uppi á Íslandi til.

Um leið og menn fást til að a.m.k. að ræða hvort það hefði verið skynsamlegt að skoða aðra möguleika í stöðunni breikkar umræðan um allan helming. Vandinn við stækkunaráformin er sá að menn enda alltaf einhvers staðar. Þó að menn tíni upp nokkur ríki í viðbót innan fárra ára, þá eru menn væntanlega komnir að landamærum Rússlands og hvað ætla menn að gera þá? Ætla menn að taka Rússland með? Þá eru menn komnir að landamærum Írans? Ætla menn að taka Íran með? Þá eru menn komnir að landamærum Kína? Fá þeir að koma með? o.s.frv. Þessum spurningum verða menn auðvitað að svara? (Forseti hringir.)

Var þá ekki betra að fara öðruvísi í málin, að búa til allsherjarstofnun sem tók til allra frá byrjun? Það er það sem ég er að reyna að fá hæstv. utanrrh. til að hugleiða, að viðurkenna að hafi verið þó ekki sé nema fræðilegur möguleiki. (Forseti hringir.) En enn sem komið er hefur mér ekki orðið mikið ágengt í þeim efnum. Heimsmynd hæstv. ráðherra er algjörlega svarthvít að þessu leyti.