Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:21:47 (4929)

1998-03-19 14:21:47# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það væri áhugavert að hafa meiri tíma til að ræða við hv. þm. en hér gefst um það hvernig mönnum miðar að byggja upp hið vestræna velferðarríki í Rússlandi og hvernig öll kurl eru að koma til grafar í þeim efnum. Ætli það sé ekki þannig að ansi mörgum sé um og ó yfir því sem gerst hefur einmitt í Rússlandi og hvernig t.d. örbirgð hefur verið leidd þar yfir milljónir og milljónatugi þannig að gamalt fólk á í stórum stíl ekki málungi matar. Erum við á réttri leið í átt til vestræns velferðarsamfélags í þeim skilningi? Eða rússneska mafían sem ræður orðið lögum og lofum og er komin með sterk ítök í Vestur-Evrópu og jafnvel á austurströnd Bandaríkjanna í kjölfar þeirrar upplausnar sem hefur ríkt nánast að öllu leyti í stjórnkerfi þessara ríkja? Er það til marks um að við séum á réttri leið í áttina að vestrænu velferðarríki eða lýðræðisríki? Svo ekki sé nú minnst á ástandið í hernum og stöðuna þar. Hv. þm. taldi koma til greina þótt það hafi nú ekki verið löggilt skoðun NATO enn þá að Rússland yrði tekið inn í NATO og þá spyr ég: Af hverju ekki strax? Af hverju gripu menn ekki hið sögulega tækifæri ef menn meina eitthvað með þessu á annað borð og sameinuðu alla Evrópu í öryggislegu tilliti? Við værum að ræða um allt aðra hluti ef menn hefðu haft kjark til þess en af einhverjum undarlegum ástæðum var það ekki í boði og ekki á dagskrá og staðreyndin er auðvitað sú, sem þeir hafa þagað yfir þunnu hljóði í umræðunni, NATO-postularnir, að það eru ekki þau ríki í suðaustanverðri Evrópu sem hefðu mesta þörfina fyrir stuðning og þar sem öryggisástandið er lakast sem hér eiga í hlut. Það eru þvert á móti þau ríki sem voru næst því að spjara sig sjálf og án nokkurrar aðstoðar. Ég skora á hv. þm. að útskýra þetta aðeins betur fyrir okkur, annars vegar vegferð Rússlands í átt til vestræns velmegunarríkis og hins vegar spurninguna um það hvort og þá hvenær Rússland verði tekið í NATO.