Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:26:27 (4931)

1998-03-19 14:26:27# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vonum við öll að Rússland nái að byggja sig upp og þar fari að birta til. Ég er sannfærður um að það muni gerast en ég trúi að það muni gerast á eigin forsendum þeirra ef það heppnast. Ég held að það sé staðreynd sem menn neita ekki orðið í dag að Vesturlönd og vestrænir sérfræðingar vanmátu í fyrsta lagi herfilega það verkefni sem menn stóðu frammi fyrir í Rússlandi þegar Sovétríkin leystust upp. Það var mikið vanmat, misskilningur og vanþekking á ferðinni, að ímynda sér að Rússland gæti tekið hrátt upp vestrænar aðferðir og vestrænar formúlur og að á einhverjum fáeinum árum yrði þar til eitthvert kapitalískt velmegunarríki á vestræna vísu eða á grundvelli vestræns hugsunarháttar. Í öðru lagi er alveg ljóst að leiðsögn og ráðgjöf vestrænna sérfræðinga frá Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og vestrænum ríkisstjórnum hefur gefist mjög misvel, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Reyndar má spyrja sig að því hvernig frammistaða þeirra sérfræðinga er yfirleitt í heiminum, t.d. í kjölfar Asíukreppunnar o.s.frv. þannig að menn hefðu kannski betur verið meira niðri á jörðinni í þeim efnum og ekki talið sér trú um að þeir vissu alla hluti og gætu kennt öllum allt. Það hefur ekki komið á daginn að þau ráð hafi alltaf gefist mjög vel eða dugað öðrum þjóðum við ólíkar aðstæður. Í þriðja lagi verður mikið vart við það nú að þjóðirnar í austanverðri Evrópu og Rússland þar með talið telji mikið vanta upp á að sá stuðningur og sú fyrirgreiðsla sem lofað var á sínum tíma í kringum 1990 hafi skilað sér. Það hefur komið á daginn að ýmislegt er skilyrt sem ekki átti að vera það og háð því að farið sé að forskrift Vesturlanda. Annars eru engir peningar í boði og margt hefur reynst í skötulíki sem lofað var eða gefið var undir fótinn með á þessum árum og þetta held ég að Vesturlönd ættu að hafa í huga.