Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:49:58 (4935)

1998-03-19 14:49:58# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:49]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg ljóst ef til kemur að þessi 12 lönd sem talað er um og jafnvel enn fleiri í framtíðinni koma inn í Atlantshafsbandalagið og mannvirkjagerð verði með þeim hætti og af þeirri stærðargráðu fjárhagslega sem hér er talað um, þá er um mjög miklar aðgerðir að ræða.

Við þekkjum þá mannvirkjagerð sem farið hefur fram hér á landi og við þekkjum það líka að við sem þjóð höfum notið góðs af mörgu af því sem hér hefur verið gert af hálfu Mannvirkjasjóðsins og Keflavíkurflugvöllur varð okkur mjög snemma mikilvægur, ekki síst þar sem við búum á eylandi og í þýðingarmiklu sambandi okkar og í tengslum við aðrar þjóðir. En ég spyr: Þekkir hæstv. utanrrh. það hvort í þessari tölu felist eitthvað annað og meira, einhver önnur og ólík mannvirki en þau sem við þekkjum á Keflavíkurflugvelli, þekkir hann hve mikið af þeirri fjárhæð byggir á flugvallargerð beinlínis og flugbrautagerð? Það væri fróðlegt að fá það inn í þessa umræðu eins og hún hefur þróast.