Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 14:51:27 (4936)

1998-03-19 14:51:27# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[14:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um það hvernig sú mannvirkjagerð skiptist nákvæmlega, enda hygg ég að það liggi ekki endanlega fyrir. Hér er um áætlanir að ræða sem kunna að breytast en þetta er úttekt sem hefur verið gerð á vegum Atlantshafsbandalagsins um nauðsynlegustu hluti. Það varðar flugvallargerð og margvísleg önnur mannvirki, radarkerfi og annað sem er sambærilegt við það sem við þekkjum hér á landi. Löndin sjálf þurfa að sjá um að endurnýja sinn herafla, þjálfa hermenn sína til að þeir geti tekið þátt í starfi Atlantshafsbandalagsins en auðvitað hjálpar Atlantshafsbandalagið við þessa breytingu og þessa þjálfun.

Það er enginn vafi á því að slík mannvirkjagerð muni að hluta til koma til góðs í borgaralegri starfsemi með sama hætti og það hefur gerst hér á landi. Þess vegna er öll þessi mannvirkjagerð mikilvæg í þeirri lýðræðisþróun sem á sér stað í þessum löndum.