Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:10:12 (4938)

1998-03-19 15:10:12# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek til máls út af ummælum hv. þm. og margra þingmanna Alþb. um að engar aðrar leiðir hafi verið kannaðar og því ætli þeir að vera á móti eða sitja hjá í þessu máli. Auðvitað er verið að byggja upp öryggiskerfi Evrópu á mörgum öðrum sviðum, m.a. innan ÖSE. Ég skil það þannig að hv. þingmenn Alþb. séu andvígir því að þessar þrjár þjóðir, sem þurftu að þola kúgun sovétmanna áratugum saman, fái inngöngu í Atlantshafsbandalagið á lýðræðislegum grundvelli. Þá skiptir það engu máli þó að 80% þeirra sem tóku þátt í þessum kosningum hafi þann vilja. Aðeins vegna þess að engar aðrar leiðir voru athugaðar, þá ætla þeir að vera andvígir því og senda þau skilaboð frá hluta Alþingis að þessar þjóðir séu ekki velkomnar þarna inn. Ég harma það mjög. Og ég vonast nú til þess að hv. þm. sitji a.m.k. hjá því ég tel að það sé afar slæmt að hluti Alþingis sendi þessum þjóðum slík skilaboð. Það liggur fyrir að þetta er eindreginn vilji þessara þjóða, von þeirra til að koma á betra efnahagskerfi og auknu lýðræði í sínum löndum.