Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:16:39 (4941)

1998-03-19 15:16:39# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði nú verið æskilegt að hafa dálítið rýmri tíma til að ræða við formann Framsfl., hæstv. utanrrh., um efnahagsmál og samhengið annars vegar milli lýðræðis og hins vegar efnahagskerfa. Ég tek undir það að ég sé að mikið bil er milli okkar hæstv. ráðherra og þeirra sem eru á sömu skoðun og hann í sambandi við það efnahagskerfi sem nú er driffjöður þróunar í heiminum og hefur ekkert að gera með það hvort efnahagskerfi kommúnismans, sem svo var kallað í Austur-Evrópu, var gangfært eða ekki, eða hversu lengi það var gangfært. Það var ekki efnahagskerfi til frambúðar. Það dæmdi sig úr leik. Við erum ekki að taka á nokkurn hátt upp merki þess hér en við erum að vara við þeirri þróun sem nú er uppi í efnahagsmálum heimsins þar sem ekki er verið að treysta lýðræðislegar undirstöður í efnahagslegu samhengi innan þjóðríkja eða í heiminum í heild sinni eða milli einstakra hluta heimsins. Þvert á móti er þetta efnahagskerfi samkeppninnar, hinnar blindu samkeppni þar sem fjármagnið ræður ferðinni og meginmælikvarðinn er ávöxtun peninganna, ávöxtun fjármagnsins sem mylur allt annað undir sig. Og það er á góðri leið með að setja efnahagskerfi heimsins í þannig stöðu að mikil ástæða er til að hafa af því þungar áhyggjur. Það óhefta samkeppnismódel sem þarna er drifkrafturinn gengur ekki til lengdar. Það gengur ekki til lengdar. Það rekst m.a. á þær takmarkanir sem umhverfi veraldar skammtar.