Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:30:19 (4943)

1998-03-19 15:30:19# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er ljóst að hv. þm. gegnir mikilvægum störfum á vettvangi Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins eða NATO eins og það er oftast kallað og á sæti í sjálfri öryggis- og varnarmálanefnd þess og hefur vafalaust sett sig vel inn í málin. En ég vil spyrja hv. þm., með leyfi forseta, að því hvort hann telji vænlegra varðandi öryggi í Evrópu að færa Atlantshafsbandalagið út til austurs að landamærum Rússlands með öllu því sem hernaðarkerfi Atlantsbandalagsins fylgir, þ.e. sem byggir í grundvallaratriðum á kjarnorkuvígbúnaði. Það er grundvöllurinn. Þá standa andspænis hvort öðru kjarnorkuveldið Rússland og kjarnorkuhernaðarbandalagið NATO.

Hvort er nú skynsamlegra að stefna að þessu eða að reyna að koma upp ,,cordon sanitaire``, belti án kjarnorkuvígbúnaðar, í Evrópu og a.m.k. að hafa einhvern stuðpúða á milli þessara aðila sem eru hvor með sitt kjarnorkuvígbúnaðarkerfið, kjarnorkuvopnalausu belti í Evrópu, með m.a. Norðurlöndin sem þátttakanda og að þróa jafnhliða sameiginlegt öryggiskerfi fyrir álfuna?