Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:06:42 (4951)

1998-03-19 16:06:42# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:06]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem nú er flutt hefur áður komið hér til meðferðar og það má segja að á henni sannist að dropinn holar steininn. Þrátt fyrir allt er komin dálítil hreyfing á þróunarmálin og ég tel að það sé út af fyrir sig fagnaðarefni og miðað við allar aðstæður ágæt markmið sem menn eru að setja sér í utanrrn. varðandi framlög til þróunarmála fram til ársins 2003. Ég held að það sé fróðlegt að íhuga það hins vegar í þessu sambandi að þróunaraðstoð er ekki aðeins aðstoð til sjálfshjálpar á viðkomandi svæðum eins og hún þarf að vera. Þróunaraðstoð þarf að beinast markvisst að tilteknum hópum og aðilum, m.a. að konum eins og hér var nefnt áðan vegna þess að reynslan sýnir að þróunaraðstoð sem beinist að konum skilar langmestum árangri.

Það má líka hugsa aðeins um það að þróunaraðstoð er friðaraðgerð í heiminum. Hún dregur úr bilinu á milli fátækra og ríkra og skapar möguleika þessara aðila til þess að tala saman og koma sér saman um málefnin á heimsvísu meira en ella væri. Þetta má kannski verða okkur nokkurt umhugsunarefni þar sem við vorum fyrir fáeinum klukkutímum að ræða um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Þar eru nú ekki aurarnir á ferðinni. Stækkun Atlantshafsbandalagsins kostar Atlantshafsbandalagið eitt 1,5 milljarða dollara á tíu árum að mati bandalagsins sjálfs fyrir utan allan þann kostnað sem fellur til í hinum nýju viðbótaraðildarríkjum sem var verið að tala um áðan. En 1,5 milljarðar dollara er dálagleg upphæð og ég sé ekki betur en að það sé tala sem megi gjarnan miða við og bera saman við þjóðarframlög til þróunarmála í milljónum dollara sem birtast upplýsingar um í greinargerð með þáltill. þeirri sem hér er til umræðu. Þar kemur fram að þjóðarframlög í milljónum dollara nema samtals, eins og þetta er sett upp hér, um 8 milljörðum dollara.

Menn sjá í þessu samhengi og í þessum samanburði hvað hér er um að ræða miklar andstæður. Annars vegar eru þessi gríðarlega dýru hernaðarmannvirki, þessi gríðarlega dýru hernaðartæki, flugvélar, sprengjuflugvélar og allt það og hins vegar svo þessi þróunaraðstoð þar sem tiltölulega mjög litlar upphæðir geta skipt sköpum fyrir fjölda manna og skapað nýtt og betra líf fyrir þúsundir og aftur þúsundir einstaklinga þegar vel og skynsamlega er að þessum hlutum staðið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hugsa ekki um þróunaraðstoðina sem einhverja manngæsku sem er góð út af fyrir sig og mannréttindaáherslu sem er góð út af fyrir sig. Það á líka að hugsa um þróunaraðstoðina sem pólitískt framlag sem hefur þann tilgang m.a. að stuðla að því að heimurinn almennt verði betri og stuðla að því að friðsamlegra verði yfirleitt í heiminum.

Mér finnst þess vegna alveg upplagt að ræða einmitt þetta mál á sama degi og verið er að ræða um stækkun Atlantshafsbandalagsins þar sem menn eru annars vegar með hugmyndir um 1,5 milljarða dollara í aukinn kostnað og hins vegar með hugmyndir um tiltölulega hóflega hreyfingu á framlögum okkar til þróunarmála.

Ég vil síðan, herra forseti, líka geta þess að ég held að það sé dálítið umhugsunarefni að þetta er 7. mál þingsins. Ég held að þessu máli hafi verið dreift 2. október. Það er auðvitað ekki við hæstv. utanrrh. að sakast nema síður sé. Mér hefur skilist að hann væri stundum að reyna að reka á eftir því að menn töluðu hérna um utanríkismál. Ég er heldur ánægður með það. En þetta er 7. mál þingsins. Það hefur ekki komist að fyrr í vetur. Það er vegna þess að þannig hefur staðið á með dagskrá þingsins. Önnur mál hafa verið talin brýnni og allt það. Mér finnst þetta kannski benda til þess að skipulagið á þingstörfunum hjá okkur sé þannig að við séum dálítið upptekin af okkur sjálfum og ekki tilbúin til að taka á málum og setja þau í viðunandi samhengi og ræða mál sem eru kannski ekki alveg á dagskrá augnabliksins. Ég held að það megi gagnrýna alla sem standa að skipulagi þingsins í þessu efni, bæði forseta og formenn þingflokka, vegna þess að þetta er auðvitað ekki eðlilegt. Þessi tillaga sem kom fram í haust hefði þurft að ræðast og m.a. að takast fyrir í utanrmn. áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1998 var afgreitt. Það hefði verið það eðlilega í þessu máli. Það er nauðsynlegt að minna á þetta.

Að síðustu, herra forseti, vil ég ítreka spurningu sem fram kom hjá hv. fyrri flutningsmanni: Hver er skoðun hæstv. utanrrh. á því að Alþingi taki afstöðu í þessu máli? Ég tel reyndar að það eigi að gera það. Auðvitað má segja að Alþingi taki afstöðu með einhverjum línum í fjárlagafrv. eða fjárlögum á hverjum tíma en það væri miklu skemmtilegra ef Alþingi ályktaði um framlög til þróunarsamvinnu til lengri tíma og að utanrmn. fjallaði um málið á þeim grundvelli og afgreiddi það í vor vegna þess að í rauninni er þetta allt saman þekkt. Menn þurfa ekki að liggja yfir tillögum af því tagi sem hér er um að ræða mjög lengi og ég hygg, miðað við þann anda sem mér finnst almennt vera í þessari umræðu, að hægt ætti vera að ná samkomulagi um málið og samkomulag er drýgra veganesti en flest annað þegar kemur að málum af þessu tagi.