Framlag til þróunarsamvinnu

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:31:18 (4956)

1998-03-19 16:31:18# 122. lþ. 91.2 fundur 7. mál: #A framlag til þróunarsamvinnu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir vinsamleg orð í minn garð og utanrrn. að því er varðar Bosníu. Því miður er það sannleikur að við gerum ekki mjög mikið meira í utanrrn. en að sinna ákveðnum skyldum. Það eru heilmiklar skyldur sem á okkur hvíla í alþjóðlegu samstarfi og eftir því er tekið ef ráðherrar mæta ekki til ákveðinna funda og því miður komumst við ekki nægilega langt í að sinna ýmsum öðrum verkefnum sem eru ekki beint skylduverkefni en þó ber okkur siðferðileg skylda til að taka þátt í alþjóðasamstarfi eins og í Bosníu og þetta ferðalag er hluti af því. Ég er alveg sammála hv. þm. að við þyrftum að gera meira af því og við erum að reyna að sinna því. Ég hef m.a. ákveðið að fara til Afríkulanda í ágústmánuði vegna þróunarsamvinnu og þróunaraðstoðar, en slík ferðalög krefjast nokkurs tíma og menn eru þá frá öðrum störfum á meðan en ég tel það mjög mikilvægt að skilningur sé fyrir því, bæði á Alþingi og annars staðar að ráðherrar þurfi að sinna slíkum hlutum ef við ætlum að sýna samkennd með þessum löndum og taka þátt í að vinna með þeim að framförum.