Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:57:52 (4959)

1998-03-19 16:57:52# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:57]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil taka þátt í þessari umræðu um þetta frv. sem er nú kunnuglegt á Alþingi, jafnoft og það hefur verið flutt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem 1. flm. með þingmönnum úr öðrum þingflokkum. Um skeið var það nú svo, ef ég man rétt, að í þeim hópi voru þingmenn úr Framsfl. sem meðflytjendur málsins en af einhverjum ástæðum hafa þeir helst úr lestinni. Í hópnum var raunar formaður Framsfl. sem var meðflytjandi að frv. sem efnislega var sömu gerðar og það sem við ræðum hér. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni og kannski lá það í orðum hæstv. utanrrh. hér áðan að það væri undrunarefni eða athugunarefni á hvaða forsendum menn hefðu skrifað upp á þetta frv. og er þá væntanlega bæði átt við þá sem nú eru meðflytjendur málsins með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem og formann Framsfl., Steingrím Hermannsson, hér fyrir nokkrum árum meðan hv. þm. og fyrrv. hæstv. utanrrh. sat á Alþingi.

Sú stefna og sú afstaða sem hæstv. núv. utanrrh. og formaður sama flokks, arftaki Steingríms Hermannssonar í formennsku Framsfl., hefur tekið að því er þetta mál varðar er mjög athyglisverð. Ég held að það sé mjög þarft fyrir alþingismenn sem og þjóðina alla að velta fyrir sér þeirri röksemdafærslu sem hæstv. utanrrh. beitir til þess að stöðva framgang þessa frv. á Alþingi Íslendinga.

[17:00]

Ég er ekki í nokkrum vafa um að allt of fáir hafa gert sér grein fyrir inntaki hernaðarstefnu NATO. Við ræddum einmitt fyrr á þessum degi kjarnorkuvígbúnaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins og þá fælingarstefnu sem svo var kölluð sem hefur verið undirstaðan í hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Það eru vafalaust nokkur tíðindi fyrir ýmsa að að mati utanrrh. Íslands fari ekki saman að vera í Atlantshafsbandalaginu og að lögleiða á Íslandi friðlýsingu landsins gagnvart staðsetningu, geymslu og meðhöndlun kjarnorku- eða eiturefnavopna eins og segir í 1. gr. frv. Það má vel vera að skilningur hæstv. utanrrh. sé í samræmi við það sem ráðamenn í Atlantshafsbandalaginu segja. Ég vil ekki út af fyrir sig skera úr um það. En mér þykir trúlegt að þetta sé boðskapur sem hæstv. utanrrh. hefur hlýtt á og tekið góðan og gildan af sinni hálfu og metur það svo að þarna megi ekki stíga skref af þessu tagi, enda felist í því að Ísland væri að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu ef landið væri friðlýst gagnvart þessum tólum, þessum skelfilegu vopnum sem hér er um að ræða. Þá gera menn sér kannski grein fyrir því hvaða skyldur það eru sem Íslendingar eru að taka á sig með veru í þessu hernaðarbandalagi. Þeir eru að samsama sig þeirri stefnu að halda fyrir sig réttinum til að hafa, beita, jafnvel að fyrra bragði og raunar með skýrum hætti réttinum til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.

Við hljótum að nefna í sambandi við þessa alvarlegu umræðu það sem hefur verið að koma á daginn á undanförnum árum í nágrannalöndum okkar að því er varðar meðferð mála af yfirstjórn NATO varðandi kjarnorkuvopn, þar sem gengið hefur verið yfir yfirlýstan vilja þátttökuþjóða í Atlantshafsbandalaginu og slíkur vilji að engu hafður, að vísu með samsekt einstaka stjórnmálamanna sem hafa tekið á sig þá ábyrgð, ef ábyrgð skyldi kalla, að fara á bak við, í leyni, yfirlýsta stefnu eigin þjóðar og ríkisstjórnar hennar. Þá er ég m.a. að vísa til Dana og þess sem nú liggur fyrir að gerðist í sambandi við meðferð kjarnorkuvopna á Grænlandi.

Það hefur verið hluti af þessari stefnu sem tengist Atlantshafsbandalaginu að játa hvorki né neita tilvist eða umferð kjarnorkuvopna inn á svæði þar sem þó um er að ræða yfirlýsingar frá viðkomandi þjóðríkjum að þau vilji ekki sjá þau í sinni auðlindalögsögu eða í sinni lögsögu. En reynslan sýnir okkur og það sem upplýst hefur verið, að þær yfirlýsingar hafa ekki verið metnar að neinu leyti heldur hunsaðar og er þar auðvitað um mjög alvarleg mál að ræða.

Ég er afar undrandi á því að hæstv. utanrrh. skuli setja málin fram á þennan hátt og vilja taka á sig þá ábyrgð sem í rauninni því fylgir að vísa frá máli af þessu tagi á Alþingi Íslendinga vegna þess að hann metur það svo að Atlantshafsbandalagið þoli ekki að slík löggjöf yrði sett hér vegna þess að það stangist á við grundvallarstefnu þess. Ég held að það væri fróðlegt til athugunar fyrir þau ríki sem nú vænta þess eða eru að fá tilboð um að þau geti óskað eftir þátttöku í Atlantshafsbandalaginu að löggjöf af þessu tagi eins og hér er fram sett yrði ekki þoluð af þeirra hálfu, að það geti ekki samrýmst veru í hernaðarbandalaginu.

Síðan er um það sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. áðan að Atlantshafsbandalagið væri eins konar forustuaðili í því að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna. Mér er vissulega vel kunnugt um að kjarnorkuveldin hafa reynt nú á síðustu áratugum að halda þeim rétti fyrir sig, þau sem hafa eignast þessi skelfilegu vopn og ráða yfir þeim, að fleiri komist ekki í klúbbinn. En er það siðferðilega góður málflutningur í rauninni á sama tíma og þau hin sömu ríki leggja sig ekki meira fram en raun ber vitni til að taka þessi vopn úr umferð? Þótt þar hafi nokkuð áunnist þá er um að ræða slíkar skelfilegar birgðir af þessum vopnum að tilvist þeirra er auðvitað ógnun við öryggi mannkyns í heild sinni á meðan þau eru til. Ég held að það sama megi gilda í sambandi við eiturefnavopnin. Þau hafa nú verið í höndum fleiri en Íraka sem fullyrt er að hafi haft þau undir höndum og ekki ætla ég að andmæla því að svo hafi verið og svo kunni að vera. Ég þekki þá umræðu vel. En fleiri ríki hafa leyft sér að framleiða og búa yfir slíkum vopnum, ég held þar á meðal forusturíki í Atlantshafsbandalaginu, þótt þau hafi síðan aðild að alþjóðasamningum þar að lútandi að koma í veg fyrir beitingu þeirra. Menn standa frammi fyrir þeirri siðferðilegu spurningu að tiltekinn hópur öflugra ríkja á almennan mælikvarða áskilur sér réttinn til að hafa þessi vopn, nota þau í sambandi við sín hernaðarmálefni, en segja við aðra: ,,Þið megið alls ekki yfir þau komast.`` Í þessu felst tvískinnungur og ég verð að segja að því miður hefur maður ekki mikla sannfæringu fyrir því að vilji sé til að leggja það á sig sem eðlilegt er til að fækka þessum vopnum og að útrýma þeim sem er auðvitað það sem setur menn í þá stöðu að geta mælt af styrkleika gagnvart öðrum sem eru að reyna að koma sér upp hinu sama.