Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:14:29 (4963)

1998-03-19 17:14:29# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:14]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Tvískinnungurinn í málflutningi hæstv. utanrrh. er satt að segja dæmalaus. Hér er verið að segja okkur að Atlantshafsbandalaginu sé nauðynlegt vegna lýðræðisvöktunar, að mér skilst, að viðhalda kjarnorkuvopnabúnaði sínum og yfirlýstum möguleika á að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Hvað er hæstv. utanrrh. að segja með þessum orðum og hvaða skilaboð eru hér til þeirra sem voru í forustu á undan honum í Framsfl. og tóku þátt í því glæfralega tiltæki að standa að flutningi þessa frv.?

[17:15]

Hvernig heldur ísinn sem hæstv. utanrrh. stendur á þegar hann talar um skort á lýðræði í einstökum ríkjum þegar fyrir liggur að forusturíki Atlantshafsbandalagsins hefur staðið fyrir því að koma á og viðhalda einræðisstjórnum í eigin heimshluta og með vitund og vilja staðið fyrir því að setja þar af lýðræðislega kjörnar stjórnir? Það var gert þegar Allende forsætisráðherra Chile var steypt af stóli og hernaðareinræðisstjórn komst til valda í fjölmörg ár undir verndarvæng Bandaríkjanna og með góðu samþykki. Þetta er nú samkvæmnin í málflutningnum. Þetta er samkvæmnin í því sem hér er fram reitt í þessum efnum. Þetta er hörmulegt til að vita og ég vænti að margir leggi hlustir við þessum málflutningi.