Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:16:24 (4964)

1998-03-19 17:16:24# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þetta er að verða nokkuð myndarlegur ,,eldhúsdagur`` sem hér hefur staðið um utanríkismál þó ólík mál hafi þar komið undir. Ég ætla fyrir mitt leyti ekki að lengja þessa umræðu mikið enda langt liðið á daginn. Vissulega væri ástæða til að fara yfir ýmislegt og maður saknar reyndar þátttöku ýmissa aðila í þessum umræðum. Það hefur t.d. verið athyglisvert hve lítið hefur farið fyrir talsmönnum Sjálfstfl. í þessum utanríkismálaumræðum í allan dag. (HG: Fáir? Enginn.)

Í fyrsta lagi fagna ég, úr því að ég hef tilefni til að fagna einhverju sem hæstv. utanrrh. sagði í umræðum um það mál sem nú er á dagskrá, þ.e. frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum, því að hæstv. utanrrh. lýsti sig samþykkan því að stefna bæri að því að losna við kjarnorkuvopn og afkjarnorkuvopna heiminn. Að sjálfsögðu er gott að um það skuli menn vera sammála. Þá gæti maður í beinu framhaldi spurt hvar þess sjáist stað, t.d. í áherslum NATO, að menn virði og viðurkenni þá nauðsyn. Ég ítreka enn og minni á niðurstöðu Alþjóðadómstólsins sem komst samhljóða að þeirri niðurstöðu að það væri ekki einvörðungu rétt af þjóðum heimsins heldur skylt að vinna að því að ganga frá bindandi samningum um algert afnám kjarnorkuvígbúnaðar. Niðurstaðan var sú að mönnum væri skylt að vinna að því vegna þess að tilvist kjarnorkuvopna samrýmdist ekki öðrum ákvæðum í mannréttindasáttmálum um öryggi, frið og velferð sem menn hefðu skuldbundið sig til að reyna að tryggja íbúum jarðarinnar.

Í öðru lagi lýsti hæstv. utanrrh. því sem mikilvægu og brýnu verkefni að koma í veg fyrir að fleiri ríki eignist kjarnorkuvopn. Það er einmitt viðfangsefni samningsins sem gerður hefur verið og síðan framlengdur og kallaður er samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningurinn, skammstafað út frá enskunni, None Proliferation Treaty.

Undanfarin ár hafa kjarnorkuveldin sex eða hve mörg þau eru, sagt: Við ætlum að vísu að viðhalda okkar kjarnorkuvopnum, áskiljum okkur allan rétt til að eiga þau og beita þeim ef svo ber undir. Kínverjar hafa á alþjóðavettvangi orðað það með nokkuð öðrum hætti heldur en aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. En síðan segjast þau ekki vilja að fleiri ríki komi sér upp þessum vopnum. Þetta hefur verið alþjóðlegur samningur.

Menn hafa haft áhyggjur af því að nokkur ríki væru í færum að koma sér upp kjarnorkuvopnum eða hefðu beinlínis undirbúið þann möguleika. Menn muna að nokkur ríki voru lengi mjög treg til að samþykkja framlenginguna á NPT-samningnum þegar þær viðræður stóðu yfir. Það voru ríki eins og Indland, Pakistan og Brasilía.

Það ljótasta af öllu er þó kannski það að á gildistíma NPT-samningsins hefur eitt ríki komið sér upp kjarnorkuvopnum. Ekki er lengur deilt um að Ísrael á kjarnorkuvopn. Þar með er siðferðið orðið harla tvöfalt. Á sama tíma og þetta á að heita bindandi samningur, þá horfa menn í hina áttina þegar ríki vinveitt Bandaríkjunum, Ísrael, hefur þetta bann að engu og kemur sér upp slíkum vopnabúnaði. Menn deila um hvort það séu 5, 10, 50 eða 100 kjarnorkusprengjur sem Ísrael á í dag. Hins vegar er tæpast deilt um það lengur á alþjóðavettvangi að slík vopn eru þar til staðar. Bolabrögð ísraelsku leyniþjónustunnar eru fræg að endemum. Þeir hafa reynt að þagga niður í þeim sem flutt hafa af þessu einhverjar fréttir. Svo langt hefur það gengið að ísraelska leyniþjónustan hefur stundað mannrán á vísindasmönnum sem höfðu flúið land, fengið hæli í öðrum löndum og leyft sér að miðla alþjóðasamfélaginu upplýsingum um það sem Ísraelsstjórn hefur gert á laun.

Ég og hæstv. utanrrh. erum sammála um að mikilvægt sé að hefta frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna. Til þess að enginn misskilji mig þá er ég ekki að mæla með neinu öðru. Ég mundi að sjálfsögðu telja það hina hörmulegustu afturför ef t.d. stjórnmálaþróunin í Indlandi nú leiddi til þess að það brysti á kjarnorkuvopnakapphlaup í Suðaustur-Asíu. Á því er veruleg hætta eins og fréttir benda nú til.

Það verður á hinn bóginn að hafa það í huga að mikil tvöfeldni hefur verið í gangi varðandi stöðu þessara mála á alþjóðavettvangi að undanförnu.

Reyndar, herra forseti, er ákaflega erfitt að bera mikla virðingu fyrir því þegar menn rjúka upp og heimta af ýtrustu hörku að sumar þjóðir fari að alþjóðalögum, t.d. Írakar. Þeir skulu ekki komast upp með nein undanbrögð. Af hverju hafa menn ekki beitt sér af sömu hörku t.d. gegn Ísrael? Ísraelar hafa ekki aðeins haft samþykktir Sameinuðu þjóðanna um hernumdu svæðin að engu og brotið Óslóarsamkomulagið vísvitandi, friðarsamkomulagið, heldur hafa þeir blygðunarlaust brotið samninginn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna. Vegna þessa hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá sjálfum gæslumönnum samningsins, t.d. Bandaríkjamönnum.

Í þriðja lagi, herra forseti, var þetta frv. á síðasta kjörtímabili flutt af þingmönnum úr öllum flokkum sem þá sátu á Alþingi nema Sjálfstfl. Þar á meðal voru þáv. formaður Framsfl. og, ef minni mitt svíkur ekki, einnig formaður þingflokks Framsfl., þ.e. hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Páll Pétursson og munaði nú um minna. Svo víðtækur var stuðningur við þetta frv. að ef marka mátti flutningsmannahópinn, eða úr hvaða þingflokkum hann kom, hefði mátt reikna með því að meiri hluti væri fyrir þessu frv. á Alþingi. Margir fylltust bjartsýni á að loksins færi eitthvað að gerast í þessum efnum.

Þá verða þau tíðindi að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson tekur við formennsku í Framsfl. og sest í stól utanrrh. Þegar leitað er eftir meðflutningi úr þingflokki Framsfl. með frv. í næstu umferð, þá berst þaðan neitun og útskýringarnar gefur hæstv. utanrrh. í svari eða viðtali við fjölmiðla. Ef ég man rétt voru þær þannig að flutningur þessa frv. eða öllu heldur lagasetning af þessu tagi samrýmdist ekki aðild okkar að NATO. Það er í sjálfu sér mjög áhugavert.

Þó að ég sé ekki sérfræðingur í þessum efnum og hafi kannski ekki sama bakgrunn eða sömu aðstoðarmenn á reiðum höndum og hæstv. utanrrh. þá leyfi ég mér að efast um þessa fullyrðingu vegna þess að ég tel ekki sjálfgefið að aðild eins ríkis að NATO geti ekki verið þannig að það væri, t.d. hvað eigin yfirráðasvæði snertir, undanþegið vissum hlutum. Ég bendi á að aðild sumra NATO-ríkja t.d. að vígbúnaðarþættinum eða kjarnorkuvopnahlutanum hefur verið mismunandi. Þannig hafa t.d. Frakkar lengi haft nokkra sérstöðu í þeim efnum eins og kunnugt er. Ég veit ekki hversu rækileg athugun á þessu, þjóðréttarleg eða lögfræðileg, liggur að baki fullyrðingum hæstv. utanrrh. Ég held því hér til haga að ég samþykki ekki fyrir fram að þetta sé óumdeilanlega svo.

Segjum að lagasetning eins aðildarríkis af þessu tagi samrýmist ekki skuldbindingum þess á grundvelli aðildar að NATO og jafngildi úrsögn úr bandalaginu, þá spyr ég náttúrlega í beinu framhaldi: Hvers vegna er það? Hvað er það sem brýtur í bága við stefnu NATO? Jú, er það ekki fyrst og fremst áskilnaður NATO til þess að beita kjarnorkuvopnum. NATO áskilur sér í fyrsta lagi réttinn á að búa yfir þeim, í öðru lagi að hóta beitingu þeirra og í þriðja lagi að játa hvorki né neita tilvist þeirra á einstökum stöðum á yfirráðavæði sínu, hvort sem er á landi, í herskipum eða flugvélum. Gott væri að hæstv. utanrrh. útskýrði hvort það er ástæðan.

Ef ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. metur það öðruvísi en t.d. forveri hans á stóli formanns í Framsfl., að lagasetning af þessu tagi sé ekki samrýmanleg skuldbindingum okkar á vettvangi NATO, þá væri mjög fróðlegt að fá að heyra í hverju það liggur. Ef ágiskun mín reynist rétt, um að það sé þessi kjarnorkuvígbúnaðarstefna, hvers virði eru þá yfirlýsingar Íslendinga um að hér skuli aldrei vera kjarnorkuvopn? Hvað var á bak við þær fullyrðingar? Voru þær ekki jafnmikið í ósamræmi við skuldbindingar okkar eins og lögfesting hins sama? Af hverju ekki? Hvað er að marka þá yfirlýstu stefnu íslenskra stjórnvalda frá 8. og fyrri hluta 9. áratugarins um að hér skyldu aldrei vera kjarnorkuvopn? Það var staðfest með samþykkt Alþingis 1985. Var eitthvað á bak við það? Voru það orð sem Íslendingar máttu hafa til heimabrúks en voru innihaldslaus gagnvart NATO eða kjarnorkuveldunum sjálfum, t.d. Bandaríkjunum?

Ég rifja upp, herra forseti, að þegar sá sem hér stendur lagði fram fyrirspurn og spurði þáv. hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson um það hvort hin yfirlýsta stefna Íslands um að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn tæki jafnframt til íslenskra hafna og til íslenskrar landhelgi og lofthelgi, þá svaraði þáv. hæstv. utanrrh., og varð heimsfrægt, að svo væri. Hann kvað þetta taka til hafna, komu erlendra herskipa í íslenskar hafnir og íslensku lofthelginnar upp yfir 12 mílna landhelginni. Þetta vakti mikla athygli og litla hrifningu í Bandaríkjunum að sögn. A.m.k. fór svo að þáv. hæstv. utanrrh. var á harðahlaupum næstu sólarhringa eftir að m.a. bandarískir fjölmiðlar höfðu slegið þessu upp, hugsanlega voru einhver viðbrögð. Þáv. hæstv. utanrrh. var á harðahlaupum við að draga úr gildi þessarar yfirlýsingar sinnar. Var það af þessum ástæðum? Var það af sömu ástæðum og hæstv. utanrrh. nú segir að þetta samrýmist ekki aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu?

Að lokum, herra forseti, verður að segja það alveg eins og það er: Trú hæstv. utanrrh. á fyrirbærið NATO er mikil. Það er ábyggilega þægilegt, dregur úr áhyggjum, menn sofna sjálfsagt öruggari á kvöldin og vakna á morgnana ef þeir trúa eins og hæstv. utanrrh. gerir, að NATO hafi tryggt friðinn, sé friðarbandalag og NATO sé að þakka að kommúnisminn leið undir lok og allir geti nú sofið rólegir.

[17:30]

Það tjáir lítt að ræða um söguna í þáskildagatíð en maður freistast stundum til þess að spyrja sig spurninga með samtengingunni: ef. Ég leyfi mér að spyrja: Ef hlutirnir hefðu nú farið öðruvísi á kaldastríðstímanum, þegar stórveldin stóðu grá fyrir járnum hvort frammi fyrir öðru, hvað þá? Að sögn kunugra munaði hársbreidd ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar heldur sennilega a.m.k. þrisvar sinnum að kjarnorkustyrjöld skylli á, þar á meðal einu sinni í Kúbudeilunni. Ef við bara hugleiðum aðeins andartak þetta ,,ef``, sækja þá engar efasemdir á hæstv. utanrrh. um að það hafi kannski verið dálítið glannalegt fyrir heiminn meðan á þessu stóð og sé það jafnvel enn þá að eiga öll þessi skelfilegu vopn?

Ég verð að segja alveg eins og er að mín heimsmynd er ekki svona einföld. Því miður hef ég einhvern veginn af þessu áhyggjur í allt öðru samhengi en hæstv. utanrrh. virðist halda.

Ég er svo að allra síðustu, herra forseti, algjörlega sannfærður um eitt, þ.e. að almenning í löndunum mun halda áfram að dreyma um betri og friðvænlegri heim þar sem þessi skelfilegu vopn eru ekki til staðar. Ég vona að sá draumur muni rætast. Kannski hitti Václav Havel, leikritaskáldið góða og sá ágæti heimspekingur, naglann á höfuðið þegar hann sagði um NATO --- hæstv. utanrrh. væri kannski hollt að fara yfir það og rifja það upp --- að NATO væri þrátt fyrir allt fyrst og fremst gamaldags klúbbur hershöfðingja sem væri að daga uppi í nútímanum og væru ekki endilega til framdráttar fyrir okkur að draga með okkur inn í framtíðina. Þetta sagði nú Václav Havel þó að hann væri að beita sér fyrir því að þjóð sín sækti um aðild að þessum sama klúbbi.