Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:34:26 (4966)

1998-03-19 17:34:26# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að fjöldi þjóða og í heilum heimsálfum eru menn ekki sammála hæstv. utannrh. um að þetta eigi allt að ráðast af hagsmunum stórveldanna og að kjarnorkuveldin eigi að hafa forustuna í þessum efnum. Nýsjálendingar voru t.d. ekki þeirrar skoðunar. Þeir fóru út í einhliða aðgerðir. Þeir voru aðilar að hernaðarbandalagi, hernaðarbandalaginu ANZAC, og voru reknir úr því eða svo gott sem þegar þeir einhliða lýstu yfir kjarnorkufriðlýsingu Nýja-Sjálands. Og af hverju gerðu þeir það? Það var vegna þess að almenningur í Nýja-Sjálandi vildi það. Menn horfðu upp á framferði Frakka með tilraunasprengingum í Kyrrahafinu og það var bullandi meiri hluti fyrir því að taka af skarið með lögum að Nýja-Sjáland og nýsjálenskt yfirráðasvæði skyldi vera kjarnorkuvopnalaust. Það var gert og Bandaríkjamenn urðu að bíta í það súra epli að þessi litla þjóð sem er nú ekkert mjög stór, 3,5 milljón manns, Nýsjálendingar, gerðu uppreisn og friðlýstu sitt land og það hafa verið fjölmargar einhliða aðgerðir af því tagi.

Af hverju hafa margir málsmetandi stjórnmálamenn á Norðurlöndunum verið að ræða um þá hugmynd að Norðurlöndin öll yrðu kjarnorkuvopnalaus? Það er í sjálfu sér umræða um einhliða aðgerðir. Jú, það er af því að menn eru ekki sáttir við það að hlutirnir gerist jafnhægt a.m.k. og þeir eru að gerast, ef eitthvað er þá að gerast. Það má alveg spyrja sig: Er nokkuð á bak við þau orð miðað við það sem við sjáum í stefnu NATO í dag eða Bandaríkjanna eða Frakka, að menn séu að undirbúa þá framtíð að við losnum við þessi vopn? Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég velti því fyrir mér hvort einhverjar innstæður séu í raun fyrir því þá efast ég um það vegna þess að mér virðist trú manna á þessi vopn enn þá því miður svo mikil. Menn eru á fullri ferð að réttlæta tilvist þeirra á ýmsan hátt.

Ég er því að sjálfsögðu ekki sammála hæstv. utanrrh. um að menn eigi að sitja og standa eins og kjarnorkuveldin vilja. Ég tel að íslenska þjóðin hafi sjálfsákvörðunarrétt til þess að ákveða að Ísland sé kjarnorkufriðlýst land.