Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:56:37 (4970)

1998-03-19 17:56:37# 122. lþ. 91.4 fundur 94. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka fram vegna þess að ég hafði ekki tíma til þess í ræðu minni áðan að innan skamms er væntanleg skýrsla og álit nefndar sem hefur unnið að því að kanna hvernig standa beri að því að efla utanríkisþjónustuna á næstu árum. Þar hefur ágætis nefnd unnið að málum, m.a. með þátttöku stjórnmálaflokkanna, bæði stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna, og mikilvægra hagsmunaaðila í landinu. Ég vænti þess að skýrslan geti orðið grundvöllur að ákvörðunum í þessu efni á næstu árum. Ekki verður hægt að auka þetta starf nema smátt og smátt, það verður ekki gert í einu vetfangi en mikilvægt að marka stefnu til lengri tíma. Ég vænti þess að álit þessarar nefndar geti orðið grundvöllur að slíkri stefnumörkun sem geti ríkt um góð samstaða á Alþingi. Það er afar mikilvægt þrátt fyrir ágreining um utanríkismál að samstaða ríki um utanríkisþjónustuna og verkefni og markmið hennar.