Samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 18:11:53 (4973)

1998-03-19 18:11:53# 122. lþ. 91.5 fundur 402. mál: #A samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[18:11]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það reynir á hófstillinguna ef uppfylla á óskir hv. flm. Ég skal reyna að taka tillit til þess samkvæmt óskum 1. flm. tillögunnar að tíminn er naumur. En tillagan er umræðunnar virði. Ég tel að hér sé mál sem sjálfsagt er að ræða og athuga í þinginu þó að ég hafi nokkrar ábendingar að gefa varðandi málið.

Svipuðu máli var hreyft ekki alls fyrir löngu á Alþingi. Það mun hafa verið á síðasta þingi. Hv. þm. Svavar Gestsson flutti mál sem var skylt því sem hér er verið að mæla fyrir, og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson varaþm. frá Norðurl. e. mun hafa verið 1. flm. málsins á Alþingi.

Ég tel auðvitað sjálfsagt að þjóðirnar við norðvestanvert Atlantshaf hafi með sér gott samstarf um lífshagsmuni sína eins og hér er vikið að í tillögunni. Það eru viss atriði sem ég hef samt nokkrar áhyggjur af varðandi áherslur sem komu fram í máli hv. flm. Það er í fyrsta lagi það að samhæfa fiskveiðistefnu. Það er gott markmið en býsna stórt viðfangsefni, jafnmikið og ber á milli. Ég veit ekki hvort við erum þeir ráðgjafar í þeim efnum. Þó að við teljum að sitthvað hafi verið vel gert í þeim efnum, þá efast ég um að það væri góð gjöf að öllu leyti til þessara þjóða ef við ætluðum að fara að ráðleggja þeim að taka upp stefnu okkar í öllum atriðum varðandi fiskveiðistjórnun en ekki ætla ég að ræða það frekar eða rökstyðja. Ég bendi á það.

Í öðru lagi er þess að gæta að Grænlendingar og Færeyingar eru ekki sjálfráðir um utanríkisstefnu sína nema að takmörkuðu leyti af sérstökum ástæðum þannig að þar eru auðvitað hindranir í vegi.

Í þriðja lagi það sem kemur fram í greinargerð með tillögunni og lýtur að umhverfisverndarsamtökum og ofverndunarsjónarmiðum, eins og það er kallað hér, og sú varnarstaða sem dregin er upp gagnvart því sem kallað er umhverfisverndarsamtök almennt. Ég skal ekki hafa á móti því að farið sé yfir þá stöðu mála en ég segi það hreint út að ég hef verið ósáttur við málafylgju íslenskra stjórnvalda gagnvart því sem eru frjáls umhverfissamtök og vísa þar til málafylgju af Íslands hálfu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem hefur líka komið fram í máli bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og kom fram í skýrslu sem var flutt þinginu þar sem mér fannst að væri verið að veifa eða sýna ekki alveg rétt merki.

[18:15]

Umhverfisverndarsamtök eru eins og önnur frjáls félagasamtök af mjög mismunandi toga þannig að það er alveg nauðsynlegt að menn skýri mál sitt í þeim efnum hvaða samtök og hvað er það sem menn eru að gagnrýna. Við getum ekki haft á móti því að skoðanir séu fjölþættar. Við eigum hins vegar að vega og meta hvað fellur að hagsmunum okkar í þeim efnum og ég hef síst á móti því. En þessar stuttorðu merkjasendingar sem hafa verið gefnar á alþjóðavettvangi af hálfu íslenskra stjórnvalda eru ekki að öllu leyti til þess fallnar að styrkja stöðu okkar. Það er einhver spenna í lofti, eitthvað yfirspennt af hálfu Íslands þegar verið er að skoða samskipti við samtök, og ég leyfi mér að nefna samtök eins og Greenpeace sem oft er vísað til. Ég er ekki sammála öllu sem frá þeim samtökum kemur frekar en ýmsum öðrum. Ég hef oft og tíðum gert athugasemdir þar. Afstaða mín t.d. til hvalveiða almennt liggur fyrir en mér er ekki sama hvernig á þeim málum er tekið og ég tel að það sé ekki beinlínis til fyrirmyndar hvernig hefur verið haldið á þeim málum af ríkisstjórn Íslands og hér á Alþingi.

Maður tekur eftir því að það mun verða komið jafndægur á vori þegar tillaga frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar kemur inn í þingið um að hefja hvalveiðar. Þetta er einmitt að gerast þessa dagana. Hvað eru menn að fara að taka ekki svona mál upp snemma á þingi, endurflytja tillögur sínar, eða umsemja eftir atvikum, frekar en vera með sýndartillögur í stórum málum, sem ég leyfi mér að kalla svo, með því að setja þau fram á síðustu vikum þinghalds og ætlast væntanlega til þess að þær fái efnislega afgreiðslu. Þetta finnst mér illa til fundið og mér finnst við ekki halda nógu vel á þessum málstað. Ég ætla þó ekki að fara að gera þá tillögu að sérstöku umræðuefni en hún tengist málinu á vissan hátt. Hv. flm. er einmitt meðflutningsmaður á hinni fyrri tillögunni sem ég nefndi hér um hvalveiðar þannig að það er greinilegt samhengi þar á milli. Þar er allt í einu vísað til tillagna Hafrannsóknastofnunar. Íslendingar eiga ekki aðeins að fara að taka upp hrefnuveiðar með því að brjóta ísinn heldur að hefja stórhvalaveiðar á langreyðum, 100 stykki takk og enginn markaður. Hvað eru menn að fara sem flytja slík mál inn á Alþingi Íslendinga? Ætla menn að fara að gera mönnum að éta þetta allt á innanlandsmarkaði þegar ekki hefur verið sýnt fram á að sé neinn markaður erlendis? Er þetta að standa skynsamlega að málum?

Ég leyfi mér að benda hv. flutningsmönnum þeirrar tillögu sem við ræðum hér á að um leið og við höldum að sjálfsögðu fram þeim málstað sem við höfum sannfæringu fyrir eigum við að reyna að umgangast frjáls félagasamtök, sem vinna í umhverfismálum eins og á öðrum sviðum, bæði af reisn en einnig með velvild. Við eigum kunna að hagnýta okkur þann málflutning, a.m.k. þar sem hagsmunir fara saman og þar sem sjónarmið fara saman eins og réttilega er vikið að í þessari tillögu, varðandi mengun hafsins þar sem þau sömu samtök, sem við erum að gagnrýna að því er varðar nýtingu sjávarauðlinda, hafa verið þau sem hafa lagt mest á sig til þess að berjast gegn mengun hafsins og vekja athygli á því og félagar úr þeim stofna jafnvel lífi sínu í hættu með aðgerðum til þess að vekja athygli á ósæmilegu framferði í umgengni við hafið að því er mengun varðar.

Þetta vildi ég segja hér. Ég skal ekki hafa orð mín fleiri þó að mér búi ýmislegt í brjósti varðandi tillöguna og læt því staðar numið.

(Forseti (StB): Vegna ábendingar hv. þm. skal þess getið að vorjafndægur eru ekki fyrr en á morgun.)