Norrænt samstarf 1996-1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 18:38:40 (4976)

1998-03-19 18:38:40# 122. lþ. 91.7 fundur 567. mál: #A norrænt samstarf 1996-1997# skýrsl, VS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[18:38]

Frsm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf frá febrúar 1996 til desember 1997. Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík var skýrslan Nýir tímar í norrænni samvinnu lögð fram og samþykkt. Með skýrslunni var ákveðið að endurnýja bæri samstarfið og aðlaga það nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Nauðsynlegt væri að hleypa nýju lífi í starfshættina og laga þá að nýjum aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að ESB.

Á undanförnum tveimur árum hefur fari fram mikið starf í Norðurlandaráði í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í skýrslunni. Nú er norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu, þ.e. ESB og EES, og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra.

Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt á þann hátt að fagnefndir voru lagðar niður frá og með áramótum 1995/1996 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á fyrrgreindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og grannsvæðanefnd. Forsætisnefnd var stækkuð og auk þess stofnuð eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Flokkasamstarf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur nú eitt árlegt þing í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram en reglubundið þing er nú haldið að hausti og formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar í þeim tilgangi að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig hefur samstarf og samráð við önnur alþjóðaþingmannasamtök, einkum evrópsk, verið eflt og aukið samstarf við fagnefndir norrænu þjóðþinganna. Í byrjun ársins gengu í gildi nýjar starfsreglur Norðurlandaráðs sem miða að því að einfalda þær reglur sem gilda um starfið og gera þær nútímalegri. Finnland hefur haft formennskuna með höndum á starfsárinu en forseti þingsins var Olof Salmén frá Álandseyjum. Berit Brørby Larsen frá Noregi tók við forsetastóli um áramótin 1997/1998.

Eftir að þessar viðamiklu breytingar hafa gengið í gildi og smám saman komist í framkvæmd hefur starfsemi Norðurlandaráðs á árinu einkennst í auknum mæli af pólitísku starfi. Fagnefndirnar hafa skipulagt starfsemi sína og raðað málum í forgangsröð. Nefndirnar hafa skipað vinnuhópa til að starfa að ákveðnum málefnum og hafa vinnuhópar einnig verið stofnaðir með aðilum úr tveimur eða fleiri nefndum. Forsætisnefnd hefur í auknum mæli einbeitt sér að undirbúningi norrænu fjárlaganna og fjallað um ýmis pólitísk málefni, einkum öryggis- og varnarmál. Þess má geta að í næstu viku á að halda ráðstefnu þar sem farið verður yfir breytingarnar sem gerðar voru og reynt að átta sig á hvernig þær hafa verkað á norrænt samstarf o.s.frv.

Þau pólitísku málefni sem notið hafa mestrar athygli á starfsárinu auk almennra norrænna málefna eru Evrópupólitíkin og öryggismál. Stefna norrænu ESB-landanna á ríkjaráðstefnu bandalagsins var til umfjöllunar og öryggismál voru bæði tekin fyrir á þemaráðstefnu og í forsætisnefnd ráðsins. Grannsvæðanefndin jók samskipti sín við grannsvæði Rússlands og Norðurlandanefndin starfaði mikið að menningarmálum en sérstök þemaráðstefna var haldin um þau á árinu.

Í byrjun ársins 1997 sátu eftirtaldir þingmenn í Norðurlandaráði: Geir H. Haarde, Guðmundur Árni Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson og Siv Friðleifsdóttir. Varamenn í ráðinu voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðni Ágústsson, Árni Johnsen, Bryndís Hlöðversdóttir, Árni M. Mathiesen og Ísólfur Gylfi Pálmason. Þann 17. maí kaus Alþingi sömu þingmenn til setu í Norðurlandaráði að undanskildum Guðmundi Árna Stefánssyni. Í hans stað var kosin Rannveig Guðmundsdóttir en Guðmundur Árni er nú varamaður hennar. Sigríður Jóhannesdóttir varð varamaður í stað Bryndísar Hlöðversdóttur.

Breytingar á Helsinki-sáttmálunum árið 1996 og samþykktir Norðurlandaráðs sem gengu í gildi í byrjun árs 1997 kveða á um að flokkahóparnir í Norðurlandaráði skuli framvegis tilnefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn var fulltrúum Íslandsdeildar skipað í eftirtaldar nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Guðmundur Árni Stefánsson sátu í forsætisnefnd. Rannveig Guðmundsdóttir kom í stað Guðmundar Árna Stefánssonar í forsætisnefnd þegar hún tók sæti í Íslandsdeildinni. Siv Friðleifsdóttir sat í Evrópunefnd og var hún annar tveggja varaformanna. Sigríður A. Þórðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson í grannsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Sigríður A. Þórðardóttir átti einnig sæti í eftirlitsnefnd ráðsins. Þá má geta þess að Geir H. Haarde var endurkjörinn formaður flokkahóps hægri manna árið 1997.

Sumarfundir allra nefnda Norðurlandaráðs voru haldnir á Grand Hótel í Reykjavík í lok júní. Íslandsdeildin sá um alla skipulagningu þeirra funda.

Norrænir fréttamannastyrkir voru á árinu veittir fjórum íslenskum fréttamönnum. Samanlagt var styrkupphæðin 70 þúsund danskar krónur.

Skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs er nú hluti af alþjóðasviði Alþingis. Starfsmenn alþjóðasviðs eru nú fjórir en Elín Flygenring hefur verið ritari og forstöðumaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá árinu 1994. Auðunn Atlason alþjóðaritari hefur aðstoðað við ritarastörf auk Kristínar Ólafsdóttur deildarsérfræðings.

Norrænu fjárlagatillögurnar fyrir árið 1998 hljóða upp á 695,9 millj. danskra króna. Þetta er skerðing á fjárlögum um 6,7 milljónir danskra króna í samanburði við árið 1997. Tillaga ráðherranefndarinnar var lögð fram í ráðinu í ágústmánuði og var fjallað um hana í ráðinu eftir að fagnefndirnar höfðu rætt um tillögurnar. Lokaumfjöllun og afgreiðsla fór síðan fram á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki.

[18:45]

Tvær þingmannatillögur, sem lagðar voru fram á árinu 1996, voru til umfjöllunar í forsætisnefnd. Önnur tillagan var frá flokkahópi vinstri sósíalista og hin frá flokkahópi hægri manna. Forsætinefnd fjallaði einnig um þingmannatillögur um öryggismál sem lögð var fram af miðjuhópnum. Til þess að komast að niðurstöðu um tillöguna var sérstakur vinnuhópur stofnaður í nefndinni.

Í tilmælum nefndarinnar sem samþykkt voru var því haldið fram að þróun varnarmála á eftirstríðsárunum hefði breyst mikið innan Norðurlandanna. Hugtakið ,,varnarmál`` hefði einnig fengið nýja merkingu. Í greinargerð með tilmælum er fjallað um þróun varnarmála á Norðurlöndunum og á grannsvæðum þeirra auk umhverfissjónarmiða í varnarmálasamstarfinu. Einnig er fjallað um málefni er snerta Norðurlönd og tengjast þróuninni í NATO. Forsætisnefnd ályktaði í þá veru að hvert land fyrir sig hafi rétt til þess án þrýstings frá öðrum að ákveða eigin varnarmálastefnu. Þennan rétt verði öll ríki að virða. Öll ríki beri ábyrgð á stefnu sinni og á því að styrkja stöðu varnarmála í Evrópu. Æskilegt væri að eitt skipulag væri ráðandi um öryggismál í Evrópu án tillits til landamæra. Lögð var áhersla á að Rússland tæki þátt í evrópska og evró-atlantíska samstarfinu með tilliti til öryggis- og varnarmála Norðurlanda í framtíðinni. Forsætisnefnd taldi að aukið norrænt samstarf um varnar- og öryggismál væri nauðsynlegt og æskilegt með tilliti til langrar samvinnu Norðurlandanna.

Þingmannanefnd um norðurskautsmálefnin hélt áfram störfum á árinu. Formaður þeirrar nefndar er Geir H. Haarde alþm. en Norðurlandaráð á þrjá fulltrúa í nefndinni. Auk þess eiga þar sæti fulltrúar frá Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum og Evrópuþinginu svo og fulltrúar frumbyggja.

Forsætisnefnd stofnaði á árinu 1996 vinnunefnd til að endurskoða upplýsingastefnu ráðsins og ráðherranefndarinnar. Formaður þeirrar nefndar var Guðmundur Árni Stefánsson alþm. Nefndin hélt áfram að endurskipuleggja upplýsingastefnu Norðurlandaráðs á árinu og lagði einkum áherslu á þrjú svið: Nýtt blað sem kom í stað Nordisk Kontakt og heitir Politik i Norden, vikulegt fréttabréf í formi símabréfs og heimasíðu á alnetinu sem veitir upplýsingar um norrænt samstarf. Stöðugt samstarf er við ráðherranefnd Norðurlandaráðs um upplýsingastefnuna og hefur samvinnan aukist eftir flutning skrifstofu Norðurlandaráðs í sama húsnæði og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar hefur aðsetur í.

Norðurlandanefnd ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: Menningarmálum, menntun og rannsóknum, félagslegum réttindum, jafnrétti, svæðasamstarfi, borgaralegum réttindum og frjálsum flutningi fólks á milli svæða. Málefni Norðurlandanefnda eru fyrst og fremst hin sígildu norrænu samstarfsmálefni en ákveðið var að einbeita sér einkum að þemaráðstefnunni um norræna menningu gagnvart alþjóðavæðingu, norrænum velferðarmálefnum, útlendingahatri og kynþáttafordómum, flóttamannapólitík, kvikmynda- og fjölmiðlamálum, símenntun og fullorðinsmenntun, grasrótarsamstarfi, norrænu tungumálasamstarfi, átaki gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og tengslum við félagasamtök. Þess má geta í tengslum við sumarfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík að í júní 1997 hélt nefndin áheyrnarfund um tungumálasamstarf með áherslu á vestnorræn tungumál.

Vík ég þá að Evrópunefndinni. Eins og nafnið gefur til kynna er hlutverk hennar að sinna samstarfi Norðurlanda og Evrópu, ESB, EES og EFTA. Evrópunefndin hélt áfram umfjöllun sinni um stefnu norrænu ESB-landanna í Evrópumálum. Í febrúar hélt nefndin ráðstefnu sem var eins konar framhald þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um Evrópumál sem haldin var árið 1996 vegna ríkjaráðstefnu ESB. Nefndin hefur á árinu fjallað mikið um störf Evrópunefnda norrænu þjóðþinganna og annarra nefnda sem fjalla um þau mál. Nefndin fór í sérstaka kynnisferð til Brussel þar sem haldnir voru fundir með fulltrúum Evrópuþingsins og fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Grannsvæðanefndin ákvað að einbeita sér að samskiptum og samvinnu við Eystrasaltslöndin og heimsskautssvæðið en einnig var ákveðið að efla samstarf við grannsvæði Rússlands. Því var ákveðið að sumarfundur nefndarinnar yrði haldinn í Murmansk þar sem nefndin kynnti sér ástand mála, einkum efnahagsmála og stjórnmála á svæðinu en sérstök áhersla var lögð á að kynna sér ástand umhverfismála.

Í eftirlitsnefndinni situr einn fulltrúi frá hverju landi. Aðalhlutverk hennar er að fylgjast með og endurskoða starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar auk Norðurlandaráðs. Nefndin ber einnig ábyrgð á stjórnskipulegum málefnum.

Þá vil ég geta þess að síðustu að verðlaun Norðurlandaráðs eru nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á bókmenntum á tungumálum norrænu þjóðanna.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1997 hlaut íslenska söngkonan Björk Guðmundsdóttir fyrir persónulega tjáningu og norræna samkennd.

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári. Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækja eða stofnana sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni tillitsemi á aðdáunarverðan hátt. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995.

Hæstv. forseti. Ég lýk þá þessum flutningi en vísa að öðru leyti til skýrslu um norrænt samstarf frá febrúar 1996 til desember 1997 sem dreift hefur verið.