Norrænt samstarf 1996-1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 19:19:46 (4979)

1998-03-19 19:19:46# 122. lþ. 91.7 fundur 567. mál: #A norrænt samstarf 1996-1997# skýrsl, VS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[19:19]

Frsm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið. Ég get í sjálfu sér tekið undir allt það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Sigríði Önnu Þórðardóttur. Líka það að ég er ekkert sannfærð um að þær breytingar sem gerðar voru á skipulagi Norðurlandaráðs séu allar til hins betra. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem var áður hafi verið orðið nokkuð úrelt og þreytt þannig að það hafi verið nauðsynlegt að breyta. En hvort við hittum akkúrat á það rétta ætla ég ekki að fullyrða um á þessari stundu en það er m.a. það sem rætt verður á ráðstefnu sem haldin verður á vegum forsætisnefndar í næstu viku.

Ég held t.d. að forsætisnefnd sé of fjölmenn og ég geri mér grein fyrir að Norðurlandanefndin á í nokkrum erfiðleikum með að ná yfir allt það starf sem henni er falið þar sem hún er í sjálfu sér með allt gamla hlutverk Norðurlandaráðs. Það er því ýmislegt þarna sem þarf að athuga þó að ég sé ekki að halda því fram á þessari stundu að við ættum að breyta nú þegar þessu fyrirkomulagi heldur gæti það alveg komið til greina eitthvað síðar.

Í sambandi við það sem kom fram hjá hv. þm. báðum og varðar Norrænu eldfjallastöðina, þá er það mál sem hefur verið rætt í forsætisnefnd og sú niðurstaða sem þar varð á bókun er í sjálfum sér ekki okkur Íslendingum í forsætisnefnd að skapi en við komumst þó ekki lengra með að breyta þeim texta sem upphaflega hafði verið settur fram. En ég lýsi ánægju með það að hæstv. ráðherra, sem fer náttúrlega með meiri völd á þessu sviði en við þingmennirnir, mun beita sér fyrir því að ekki verði af því að Norræna eldfjallastöðin verði lögð niður eða starfsemi hennar verulega minnkuð. Það er a.m.k. ekki vilji okkar íslensku þingmannanna í Norðurlandaráði.

Um að efla starf Íslandsdeildarinnar sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir kom inn á, þá get ég alveg tekið undir það með hv. þm. að full ástæða geti verið til þess, en óneitanlega hefur Íslandsdeildin minni verkefni eftir að þessar skipulagsbreytingar allar áttu sér stað og flokkahóparnir, þingflokkarnir í Norðurlandaráði hafa fengið aukin völd. En það þarf ekki að þýða að við minnkum okkar starf. Sem dæmi um okkar starfsemi er sú ráðstefna sem haldin verður í Reykjavík á morgun og ber yfirskriftina Norden er í orden eða hvað? en sú ráðstefna virðist fá mjög góðar móttökur bæði á hv. Alþingi og úti í þjóðfélaginu því að mikil aðsókn er að henni. Þar ætlum við að velta fyrir okkur þeim málefnum sem snúa að samstarfinu innan Norðurlanda og ekki síður hvernig það á að tengjast Evrópusambandinu og hvaða afleiðingar stækkun Evrópusambandsins mun hafa á samstarf Norðurlanda og hin einstöku norrænu ríki.

Mig langar, hæstv. forseti, í lokin að spyrja samstarfsráðherra um áherslur þær sem hann mun leggja í sambandi við norrænt samstarf þar sem Ísland tekur nú við formennsku í ráðherranefndinni á næsta ári, ef ég veit rétt, og hvort þegar sé farið að velta fyrir sér nýjum áherslum og hverjar þær séu þá. Ég held að fróðlegt væri að fá það inn í þessa umræðu.