Norrænt samstarf 1996-1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 19:24:25 (4980)

1998-03-19 19:24:25# 122. lþ. 91.7 fundur 567. mál: #A norrænt samstarf 1996-1997# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[19:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur átt sér stað um norræn mál þó betra hefði verið að hafa meiri tíma til hennar. Hér hefur staðið umræða í eina níu klukkutíma um utanríkismál í dag sem hefur verið afar góð að mínu mati. Það er hins vegar staðreynd að síðar í þessum mánuði mun jafnframt fara fram utanríkismálaumræða. Samkvæmt því verða þessum málaflokki gerð ágæt skil á Alþingi í vetur.

Í fyrsta lagi vil ég segja í sambandi við fjárlögin og vegna þeirra ummæla hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þau hafi verin skorin niður um 65 millj., þá er rétt að hafa í huga að á árinu 1995 hækkuðu fjárlögin um 50 millj. sem var undanfari niðurskurðartímabils en eftir því sem ég best veit hafa útgjöldin síðan verið skorin niður um 35 millj. þannig að í reynd hafa útgjöldin nokkurn veginn staðið í stað á undanförnum árum eða það hefur orðið lítils háttar aukning. En nú er gert ráð fyrir því að fjárlögin verði óbreytt á næsta fjárlagaári og Svíar hafa jafnframt fallist á það. Ég vænti því þess að þeirri varnarbaráttu fyrir norrænum verkefnum sé lokið og hugsanlega geti sóknartímabil hafist á nýjan leik þegar þjóðunum verður enn ljósara að Evrópusamstarfið kemur ekki í staðinn fyrir norræna samstarfið, sérstaklega á sviði menningarmála og heldur ekki á sviði efnahagsmála og margra annarra málaflokka.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir spurði um Schengen-samstarfið og stöðu þess. Ég hafði vænst þess að geta lagt þáltill. til kynningar fyrir Alþingi á næstunni um staðfestingu á Schengen-samkomulaginu sem var undirritað í desember 1996. Þessari þáltill. hefur nú þegar verið dreift til fulltrúa utanrmn. og fulltrúa í allshn. eftir því sem ég best veit. Þingmenn hafa væntanlega séð þá tillögu. Þar er um að ræða samninginn frá 1996. Væntanlega fara að hefjast samningaviðræður eftir að Evrópusambandið ákvað að gera hluta af þessu samstarfi innan Evrópusamstarfsins en það var ákveðið með svokölluðum Amsterdamsamningi.

Staða þess máls er sú að flestar Evrópuþjóðirnar eru fylgjandi því að Ísland og Noregur verði með í þessu samstarfi. Þar er gott dæmi um norrænt samstarf, norrænt verkefni, þar sem allar Norðurlandaþjóðirnar hafa staðið saman. Svíar, Finnar og Danir hafa stutt þessa viðleitni í einu og öllu enda er það sameiginlegur vilji Norðurlandaþjóðanna að brjóta ekki upp norræna vegabréfasambandið. Það hefur hins vegar gætt nokkurrar tregðu hjá öðrum ríkjum, sérstaklega Frökkum, en unnið er að því að ryðja þeim hindrunum úr vegi og ég hef trú á að það takist. Bretar, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, hafa nýlega lagt fram tillögu að umræðugrundvelli um þetta mál. Ég er tiltölulega mjög sáttur við þá tillögu Breta og tel að það sé ágætur grundvöllur til að hefja samningaviðræður á. Ef hins vegar hugmyndir Frakka verða ofan á eða leitast verður við að ná einhverri málamiðlun milli hugmynda Breta og hugmynda Frakka, þá tel ég það ekki vænlegt til árangurs eða niðurstöðu í málinu. Næsti fundur um þetta mál er 26. þessa mánaðar og vonandi skýrist málið þá enn frekar og hægt verði að gefa betri upplýsingar um það.

Að því er varðar norrænt samstarf á sviði Sameinuðu þjóðanna þá er alveg rétt hjá hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur að dregið hefur úr því samstarfi. Ástæðan er einfaldlega sú að þrjú ríki Norðurlandanna eru aðilar að Evrópusambandinu og Evrópusambandsríkin standa að sameiginlegum tillögum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hafa þar af leiðandi dregið sig út úr sameiginlegum tillöguflutningi Norðurlandanna í verulegum mæli. Hins vegar hafa Norðurlöndin reynt að viðhalda samstarfi sínu. Það er t.d. hefð að utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittast á fundi á ári hverju í New York þegar þeir koma til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og sendiherrar okkar þar í borg, sem eru fulltrúar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, halda reglulega fundi og samstarfi sín í milli.

[19:30]

Það hefur jafnframt styrkt starf okkar að mínu mati að við höfum tekið upp nánara samstarf við Evrópusambandið og Ísland er mjög oft meðflutningsaðili að tillögum sem Evrópusambandsríkin standa að. Þess vegna hefur samstarfið við Evrópusambandsríkin aukist frá því sem áður var og hefur að nokkru leyti komið í staðinn fyrir hið hefðbundna norræna samstarf. Það er hins vegar sem betur fer ríkt hjá öllum Norðurlandaþjóðunum að halda fast saman og við höfum átt þess kost að hafa áhrif á tillöguflutning á vettvangi Evrópusambandsins á grundvelli þeirra samninga sem við höfum um pólitísk samráð við Evrópusambandið samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Hvort ætlunin sé að styrkja fastanefndina, þá verð ég að svara því neitandi, því miður. Við höfum ekki ráðrúm til þess að því ég best fæ séð en ég tek undir að full þörf væri á því að styrkja það starf. Það liggur alveg ljóst fyrir að sú starfsemi er í algeru lágmarki eins og í reynd margvísleg starfsemi á okkar vegum á alþjóðavettvangi. Það er mikið vinnuálag á þessu fólki og það hefur enga möguleika til að taka þátt í öllu því starfi sem þarna fer fram.

Að því er varðar spurningu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um áhersluatriði Íslands í norrænu samstarfi á næsta ári, þá höfum við ekki enn þá gengið frá því en við höfum þó hafið undirbúning að því starfi. Ég mun að sjálfsögðu skýra Alþingi frá aðalatriðum þeirrar áætlunar á haustþingi. Það er þó rétt að taka það fram að við munum leggja áherslu á að fylgja eftir áætlunum Svía og Norðmanna því það er alveg ljóst að við breytum ekki gagngert stefnu samstarfsins frá ári til árs heldur tengjast áætlanir ríkjanna sem voru á undan okkur í formennsku því sem við munum gera. En í þeim umræðum sem þegar hafa farið af stað af okkar hálfu, þá munum við m.a. leggja áherslu á upplýsingamál í víðara samhengi, ekki síst með tilliti til lítilla fyrirtækja og samkeppnishæfni Norðurlandanna út á við. Við munum leggja áherslu á réttindi norrænna þegna, norrænan málskilning sem munu áfram vera áherslumál. Við munum auka áhersluna að því er varðar málefni hafsins, þ.e. sjávarútvegssamstarfið, og má t.d. nefna Ár hafsins sem er í ár. Ég tel mjög koma til greina að við reynum að fylgja því eftir á norrænum vettvangi. Við munum beina athyglinni að málefnum Norðurskautsráðsins á samstarfi Vestur-Norðurlanda. Á sviði efnahags- og fjármálasamstarfsins er alveg ljóst að hin nýja evrópska mynt kemur til með að skipta Norðurlöndin miklu máli og því munum við leggja áherslu á vinnu á því sviði sem varðar samnorræna hagsmuni. Ég tel jafnframt mikilvægt að norræna ráðherranefndin taki á einhvern hátt þátt í þeim viðburðum sem tengjast landafundaárinu, nýrri öld og minnast þess að 1000 ár eru liðin frá því að Leifur Eiríksson fann Ameríku.

Að lokum er rétt að leggja á það áherslu að umhverfismál verða að sjálfsögðu áfram áhersluatriði af okkar hálfu. Ég nefni í því sambandi þann mikilvæga samning sem nú er unnið að á sviði loftmengunar í heiminum og það er nauðsynlegt að hafa gott samstarf milli Norðurlanda um þau mál og önnur umhverfismál hvort sem þau tengjast loftinu, hafinu eða landinu. Umhverfismál eru sífellt mikilvægari þáttur í samstarfi þjóða og við hljótum að vinna að því á vettvangi Norðurlandasamstarfsins.

Ég vil að lokum þakka þessa umræðu og fagna því að góð samstaða ríkir á Alþingi um Norðurlandasamstarfið. Það er einhugur í þingmönnum um að halda því samstarfi áfram, efla það frekar en veikja. Ég tel það mikilvægt veganesti fyrir þá sem vinna á þessu sviði hvort sem það er á vettvangi þjóðþinganna eða á vettvangi ríkisstjórnanna.