Vestnorræna ráðið 1997

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 19:43:22 (4983)

1998-03-19 19:43:22# 122. lþ. 91.8 fundur 566. mál: #A Vestnorræna ráðið 1997# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[19:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu og það mikilvæga starf sem hefur verið unnið á þessum vettvangi. Ég vil ítreka þá skoðun mína að það eigi að vera meðal forgangsverkefna í fjölþjóðlegu samstarfi okkar Íslendinga að beina athyglinni að norðurskautssvæðinu, þar á meðal Vestur-Norðurlöndum og þeim sameiginlegu hagsmunum sem við eigum með þessum þjóðum. Þar ber að sjálfsögðu hæst að standa vörð um umhverfi sjávar, fjölbreytileika lífríkisins og sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Við í utanrrn. vinnum að því af fullum krafti að reyna að auka þetta samstarf, sérstaklega á vettvangi Norðurskautsráðsins en ég tel að okkur sé jafnframt skylt að styðja við bakið á samstarfi Vestur-Norðurlandanna.

Ég hef oft varað við því að mér hefur fundist þetta samstarf ekki vera í nægilega góðum tengslum við norrænu ráðherranefndina. Það eru raunverulega miklu sterkari tengsl við Eystrasaltssamstarfið og það kann að vera að ástæðan sé m.a. sú að stofnað var Vestnorræna þingmannasambandið og í reynd gerð tilraun til að koma á sambærilegu samstarfi á ráðherragrundvelli. Ég taldi það hið mesta óráð vegna þess að þá væri hætt við því að önnur Norðurlönd létu sig litlu skipta þetta samstarf en það á að sjálfsögðu að vera áhugamál Finna, Svía, Dana og Norðmanna að samstarf á þessu svæði sé með sama hætti og það er áhugamál okkar Íslendinga að samstarfið við Eystrasaltið gangi vel og eðlilega fyrir sig. Með þessum orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr samstarfi þingmanna á þessu svæði. Mér finnst það vera nauðsynlegt og eðlilegt, en vil aðeins leggja á það áherslu að það ágæta samstarf má ekki verða til þess að Norðurlandaráð láti sig þetta svæði litlu skipta eða hafi minni áhuga á því. Þess vegna munum við á formennskuári Íslands, eins og ég tók fram, beita okkur fyrir því að auka vægi þessa samstarfs og gera það eitt af áhersluatriðum Íslands.

[19:45]

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir góð orð í minn garð fyrir að sinna samstarfinu. Ég sé ekkert eftir því og tel að það hafi orðið utanrrn. og utanríkisþjónustunni til góðs. Það hefur m.a. orðið til þess að Norðurlandamálum er sinnt í ríkara mæli en oftast áður í utanrrn. sem er nauðsynlegt vegna þess að Norðurlandasamstarfið er grundvallaratriði í öllu alþjóðasamstarfi Íslendinga. Samstarfið við Norðurlöndin er svo mikilvægt að það myndar algeran grundvallarþátt í öðru starfi. Það er alveg sama til hvaða samstarfs við lítum, hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, OECD og allra annarra samtaka sem við vinnum innan, að ávallt er rík tilhneiging til þess að Norðurlöndin haldi saman og haldi sérstaka fundi. Sama má segja um Evrópuráðið og mörg önnur alþjóðleg samtök. Með því að sinna Norðurlandasamstarfinu vel erum við í reynd að styrkja annað alþjóðlegt samstarf. Þess vegna er afar nauðsynlegt að norrænt samstarf sé ríkur þáttur í starfsemi utanrrn. hvernig svo sem því er háttað og hver gegnir embætti samstarfsráðherra á hverjum tíma enda er það þannig meðal margra Norðurlandaþjóðanna að þessum verkefnum er sinnt frá utanríkisráðuneytunum og þó hafður sé annar háttur á hér á landi, þ.e. skrifstofa ráðherranefndarinnar er hjá forsrn., hefur það á engan hátt valdið neinum vanda, þvert á móti. Það samstarf hefur gengið afar vel en ég er hins vegar hræddur um að ef utanrrn. hefði ekki sinnt þessu starfi væri hættara við því að Norðurlandasamstarfið hefði ekki orðið jafnríkur þáttur í starfsemi ráðuneytisins.