Hrognkelsaveiðar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:24:25 (5001)

1998-03-23 15:24:25# 122. lþ. 92.1 fundur 269#B hrognkelsaveiðar# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vek athygli á málefnum hrognkelsaveiðimanna. Ég spyr hæstv. sjútvrh. hvort einhverjar aðgerðir séu fyrirhugaðar vegna þess ástands sem er hjá þeim mönnum. Til hvaða aðgerða ætlar sjútvrh. að grípa vegna tekjusamdráttar hjá grásleppuveiðimönnum? Tekjusamdráttur þeirra verður a.m.k. 65% því að þeir hafa fengið tilkynningu um að þeir fái aðeins að landa helmingi þess magns sem þeir veiddu í fyrra og búið er að tilkynna um 35--40% verðlækkun. Þetta varðar mörg hundruð fjölskyldur í landinu, þetta varðar frá einum fjórða upp í tvo þriðju af heildartekjum margra sjómanna og ég bendi sérstaklega á sjómenn á Austurlandi og á norðausturhorninu, sem hafa ekki treyst sér til að hefja veiðar vegna þessa ástands.

Síðan vil ég spyrja: Hvers vegna er það liðið að þorsknetabátar fái að landa ótakmarkað grásleppu, þ.e. tugum tonna daglega? Þetta er eini fiskurinn sem hægt er að draga af 250 faðma dýpi, og á tíu faðma dýpi eða hvað sem er. Hægt er að láta þennan fisk vera allt að hálftíma um borð í bátnum og láta hann síðan í sjóinn og hann lifir. Hann getur velkst í netum í 4--5 daga án þess að nokkuð komi fyrir. Hvernig stendur á því að snúið var til baka með þá aðgerð sem átti að grípa til um daginn að meina mönnum að koma með þennan fisk í land og nú fá þeir að landa ótakmarkað eins og þeir vilja án þess að vera með nokkra heimild til veiða á grásleppu, veiðitímabilið er ekki hafið við Faxaflóa? En á sama tíma henda menn þorski alveg miskunnarlaust í hafið.

Ég spyr hvort það eigi að grípa til aðgerða vegna ástandsins í grásleppuveiðunum.