Hrognkelsaveiðar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:28:28 (5003)

1998-03-23 15:28:28# 122. lþ. 92.1 fundur 269#B hrognkelsaveiðar# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:28]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Mér fannst þau þó vera mjög takmörkuð. Ég minni á að á sínum tíma þegar loðnuveiðiflotinn missti möguleika sína til að stunda loðnuveiðar að ákveðnu marki voru þeim úthlutaðar heimildir í þorski. Ég tel að núna sé nákvæmlega sama ástand uppi. Það er mögulegt að veita þessum mönnum sem hafa stundað hrognkelsaveiðar á móti takmarkaða heimild til að veiða þorsk, bara til þess að vega upp á móti tekjutapinu í þetta skipti.

Ég minni einnig á það sem var að gerast varðandi grásleppuna og löndun á markaði núna að Fiskistofa var búin að senda út tilskipun um að hætta að koma með þennan fisk í land. Þá slepptu menn þessum fiski lifandi í sjóinn. Síðan kom önnur tilskipun um að það yrði að koma með allan fisk í land sem væri veiddur. Þetta er svolítið merkilegt því að það er líka til fyrirmæli um það að sleppa þeim fiski sem veiðist án heimildar í sjóinn sem er lifandi og lifir af. Ég skora á sjútvrh. að grípa inn í málið.