Aldurssamsetning þjóðarinnar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:39:00 (5011)

1998-03-23 15:39:00# 122. lþ. 92.1 fundur 271#B aldurssamsetning þjóðarinnar# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjmrh. Fyrir skömmu voru hv. þm. fjárln. og efh.- og viðskn. boðaðir á upplýsingafund í Seðlabanka Íslands þar sem Jón Blöndal, starfsmaður OECD, fór yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi í samanburði við önnur OECD-ríki. Fundurinn var afar fróðlegur og kom Ísland almennt mjög vel út úr þessum samanburði. Þar kom m.a. fram að hinir svokölluðu kynslóðareikningar eru úrelt fyrirbæri og skila ekki þeim árangri sem til var ætlast. Hins vegar benti Jón Blöndal á að eitt af grundvallaratriðum í framtíðarsýn manna um efnahagsmál væri að gera nauðsynlega könnun á aldurshópabreytingum, þ.e. könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa á Íslandi.

Á síðasta þingi lagði ég ásamt nokkrum þm. Framsfl. fram þáltill. um þetta efni. Hún hljóðaði þannig að Alþingi skoraði á ríkisstjórnina að koma á fót vinnuhópi sérfræðinga sem kannaði áhrif fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar eftir árið 2010 á eftirlauna- og lífeyrissjóðsmál og á heilbrigðiskerfið. Ég hvatti til þess að nefndin skilaði áliti innan árs. Mig langar að vita hvort ríkisstjórnin hafi tekið á þessu máli, sem er mjög brýnt og alvarlegt. Í raun undirstrikaði þessi fundur með Jóni Blöndal, starfsmanni OECD, að mjög nauðsynlegt væri að fara út í þessa reikninga.