Aldurssamsetning þjóðarinnar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:43:11 (5013)

1998-03-23 15:43:11# 122. lþ. 92.1 fundur 271#B aldurssamsetning þjóðarinnar# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég tel þó að við höfum ekki tekið jafnnákvæmlega á þessum málaflokki sem skyldi. Það kemur fram í upplýsingum sem ég hef frá Hagstofu Íslands að árið 1970 voru um 5,9% þjóðarinnar 65 ára og eldri. Árið 1995 voru 11,3% 65 ára og eldri, og gert er ráð fyrir að árið 2030 verði þetta um 19% þjóðarinnar, sem segir okkur að árið 2030 verða Íslendingar um 321.000, þar af 60.400 manns sem eru 65 ára og eldri.

Í nokkrum vestrænum löndum þar sem aldurshópadreifingin hefur verið könnuð kemur í ljós að um miðja næstu öld verða hugsanlega tveir vinnandi menn fyrir hvern eftirlaunaþega og ég tel brýnt að við skoðum þetta mjög vel. Það má enginn misskilja orð mín með þeim hætti að ég sé að hnýta í aldraða, langt í frá. Ég er að hugsa um framtíð aldraðra um leið og ég hugsa um framtíð þjóðarinnar.