Verslunaratvinna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:52:26 (5016)

1998-03-23 15:52:26# 122. lþ. 92.8 fundur 151. mál: #A verslunaratvinna# (heildarlög) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. vegna frv. til laga um verslunaratvinnu frá efh.- og viðskn. Efh.- og viðskn. gerir tillögu um nokkrar breytingar á frv., sem eru í 11 liðum, og mun ég nú gera grein fyrir þessum brtt.

(Forseti (ÓE): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Í fyrsta lagi er lögð til breyting við 4. gr. frv. þess efnis að 3. mgr. 4. gr. falli brott en í henni er samkvæmt frv. kveðið á um að verslun á grundvelli starfsleyfis samkvæmt V. kafla, þ.e. vegna sölu notaðra ökutækja, skuli tekin af fastri starfsstöð. Er þetta fellt niður samkvæmt tillögu nefndarinnar.

Frá nefndinni eru tvær brtt. við 5. gr. frv. Í a-lið bætist við lokamálslið smáviðbót sem rakin er í brtt. Í b-lið er gerð tillaga um að það komi ný málsgrein, svohljóðandi:

,,Ef kaupandi óskar þess er hverjum þeim sem stundar farandsölu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim skylt að afhenda kaupanda nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem skráð hefur verslunarrekstur.``

Þetta er hið efnislega ákvæði 8. gr. sem lagt er til að verði umorðuð á þennan veg.

(Forseti (ÓE): Það er kannski hvort tveggja að það er mikill hávaði í salnum og ræðumaður talar ekki mjög hátt.)

Hæstv. forseti. Ég reyni að haga orðum mínum þannig að ég sé ekki í kapphlaupi við aðra þingmenn sem vilja gjarnan ræða mál sín á milli og þeir eru sjálfsagt að ræða mál sem þeim finnst mikilvægari en það sem gæti verið sagt hér en ég vona að við getum haldið þessu áfram.

Ég var að gera grein fyrir 3. lið brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um verslunaratvinnu. Það er brtt. við 7. gr. þar sem því ákvæði er bætt við ,,hvort sem hún er stunduð í atvinnuskyni eða ekki``. Ég hafði áður rakið þann lið brtt. sem gengur út á það að 8. gr. frv. verði umorðuð. Síðan er í 4. lið gert ráð fyrir því að kaflanúmer og kaflaheiti III. kafla falli brott enda er búið að ganga frá þeim greinum annars staðar.

Í 5. lið brtt., sem er við 12. gr. frv., er smáorðalagsbreyting sem þar kemur fram. Í 6. lið er brtt. við 13. gr., er verði 12. gr., og þar er bætt við nýrri málsgrein þess efnis að ,,verslun á grundvelli starfsleyfis skv. 1. mgr. skal rekin á fastri starfsstöð`` o.s.frv. Þar er verið að fella inn þá kröfu sem var gerð til þeirra sem versla með notuð ökutæki og var áður ákvæði í 3. mgr. 4. gr.

Í 7. lið brtt. er gert ráð fyrir breytingum á 14. gr., þ.e. að lokamálsliður 2. mgr. falli brott og eins að breyta tilvísun í 3. mgr.

Í 9. lið brtt. er gert ráð fyrir að VII. kafli falli brott en í honum er fjallað um lokunartíma sölubúða og það eru einar fjórar greinar sem þar er lagt til að detti út úr frv.

Í 11. lið brtt. er síðan gert ráð fyrir öðru gildistökuákvæði en var í frv.

Þetta eru brtt. efh.- og viðskn. við frv. um verslunaratvinnu sem ég vona að þingheimur geti tekið undir.