Starfsemi kauphalla

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:57:48 (5017)

1998-03-23 15:57:48# 122. lþ. 92.9 fundur 285. mál: #A starfsemi kauphalla# frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. frá efh.- og viðskn. og nál. við frv. til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til brtt. við frv. og mun ég gera grein fyrir þeim.

Í 1. lið brtt. er gerð brtt. við 1. gr. þar sem einungis er verið að kveða skýrar á um hugtök, þ.e. um svokallaðan tilboðsmarkað, þar er talað um skipulega tilboðsmarkaði.

Í 2. lið er gerð tillaga um að breyta lagatilvísun.

Í 3. lið brtt. eru brtt. við 4. gr. sem fjallar um starfsleyfi. Þar er í a-lið brtt. gert ráð fyrir að þar sé mismunandi krafa um fjárhæð innborgaðs hlutafjár eftir því hvort verið er að tala um skipulegan tilboðsmarkað eða kauphöll. Í b-lið er aðeins fjallað um þær upplýsingar sem sá aðili sem hyggst sækja um starfsleyfi þarf að leggja fram til að gera þær upplýsingar eðlilegri miðað við þær væntingar sem viðkomandi aðili hefur áður en hann hefur störf.

Í 4. lið brtt. er lagt til að í 5. gr. falli síðari málsl. 2. mgr. niður.

Í 5. lið brtt. er brtt. við 6. gr. þar sem einungis er verið að breyta fyrirsögn og að fyrirsögnin verði ,,Virkur eignarhlutur`` en ekki eignarréttur og þetta er í samræmi við hugtök í öðrum lögum.

Í 6. lið er gerð brtt. við 7. gr. sem er umorðun á 1. mgr. og hún orðist svo:

,,Framkvæmdastjóri hlutafélags, sem starfar samkvæmt lögum þessum, skal auk þess uppfylla hæfisskilyrði laga um hlutafélög, hafa óflekkað mannorð, hafa aldrei verið sviptur forræði á búi sínu og hafa til að bera víðtæka reynslu til starfans að mati stjórnar.``

[16:00]

Í 7. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 10. gr. frv. Það er einungis orðalagsbreyting í a-lið og b-lið. Síðan eru í c-lið felld niður orðin ,,og bankaeftirlit Seðlabanka Íslands metur gildan`` í 3. tölul. greinarinnar, enda er þar verið að vísa í kauphöll eða samsvarandi markaði sem aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa metið gilda. Í d-lið er enn fremur ákveðin breyting á hugtakanotkun.

Í 8. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 13. gr. frv. þar sem fjallað er um málskotsrétt og skýra þær sig sjálfar. Í a-lið er tilvísanabreyting og í b-lið er lagt til að 3. málsl. greinarinnar falli niður.

Í 9. lið brtt. er lögð til breyting á 14. gr. frv. um ákveðna viðbót við 3. og 4. tölul. Það er verið að vísa til þess að fyrirtæki þurfi að hafa heimild til að veita þjónustu hér á landi.

í 10. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 15. gr. frv. þar sem verið er að stytta frest úr sex mánuðum í þrjá mánuði, þ.e. frestur sem stjórn kauphallar hefur til þess að fjalla um umsókn um skráningu.

Í 11. lið brtt. er lögð til breyting 17. gr. frv. þar sem verið er að kveða svo á um að áður en stjórn kauphallar samþykki fyrir sitt leyti reglur um opinbera skráningu verðbréfa skuli leita umsagnar um þær hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Í 12. lið brtt. eru lagðar til breytingar á 18. gr. frv. þar sem ráðherra þarf að láta Seðlabanka Íslands vita ef hann hyggst stöðva viðskipti í kauphöll. Enn fremur er lagt til að 4. mgr. frv. falli niður. Þetta er sú leiðrétting að heimilt er að stöðva viðskipti í kauphöll þegar sérstakar aðstæður krefjast og í a-lið er gert ráð fyrir því að tilkynna eigi um slíkt til bankaeftirlitsins. En 4. mgr. er felld niður en þar gert er ráð fyrir því að ráðherra hafi þetta vald. Stjórn kauphallarinnar á að hafa þetta vald samkvæmt brtt. nefndarinnar.

Hæstv. forseti. Nú hefur ég gert grein fyrir brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða og ég vænti þess að hv. þingheimur geti samþykkt þær.