Staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:09:51 (5020)

1998-03-23 16:09:51# 122. lþ. 92.93 fundur 277#B staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það varð okkur öllum mikil vonbrigði að miðlunartillaga sáttasemjara, sem byggði á þeim frv. sem ráðuneytisstjórar þriggja ráðuneyta höfðu unnið, skyldi verða felld í atkæðagreiðslu, en það er reyndar sá réttur sem menn hafa, að samþykkja eða fella þær tillögur sem þannig eru lagðar fram.

Það er líka sameiginlegt mat okkar þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hefur verið falið að fara með þetta mál fyrir hennar hönd, utanrrh., sjútvrh. og mín, að mál þetta verði ekki að lokum leyst nema frv. þrjú, sem samin hafa verið verði grundvöllur þeirrar lausnar. Það er mat okkar allra þriggja og enginn ágreiningur er um það.

Það er jafnframt mat okkar að þessi frv., þegar þau kæmu til kasta til lausnar málsins, yrðu jafnframt að leiða til þess að vinnufriður skapaðist þar með. Þetta tvennt hangir saman.

Sáttasemjari hefur skýrt okkur frá því að upp úr viðræðum hafi slitnað og nýr fundur milli aðila hafi ekki verið boðaður og hann sjái á þessari stundu ekki forsendur fyrir því hvenær slíkur fundur verði boðaður eða með hvaða hætti, þó að sjálfsagt verði það gert innan ekki of margra daga miðað við verklagsreglur sem um það fjalla.

Hæstv. sjútvrh. er á þessari stundu, eftir því sem ég best veit, í viðræðum við forráðamenn sjómanna og síðan við forráðamenn Landssambands ísl. útvegsmanna til að kynna sér beint viðhorf þeirra til þeirrar stöðu sem nú er upp komin í þessu viðkvæma og erfiða máli. Í framhaldi af þeim fundum mun ráðherranefndin sem ég nefndi áðan koma saman til fundar og meta stöðuna fyrir sitt leyti og hvernig hún skuli nú koma eða koma ekki til kasta ríkisstjórnarinnar og þá í framhaldi af því, eftir atvikum, löggjafarstofnunarinnar.

Það er því heldur fljótt fyrir mig á þessu augnabliki, hv. málshefjandi, að kveða upp úr um það hvernig viðbrögðin verða þar sem hæstv. sjútvrh. er, eins og ég sagði, einmitt þessa stundina í viðræðum við hagsmunaaðila. En við skulum gæta þess að þingið fái svo fljótt sem auðið verður upplýsingar um afstöðu okkar til þess máls.