Staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:14:54 (5022)

1998-03-23 16:14:54# 122. lþ. 92.93 fundur 277#B staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta er sérkennileg staða. Sjómenn eru í raun í verkbanni af hálfu útvegsmanna. LÍÚ heldur flotanum í landi. Það er e.t.v. þess vegna sem enginn hefur mætt í fjölmiðla til að tapa mörkuðum eða milljörðum, en þegar verkfall sjómanna hófst í febrúar sl. stóð ekki á slíkum yfirlýsingum af hálfu fiskverkenda og söluaðila strax á fyrsta degi.

[16:15]

Þögnin nú segir ákveðna sögu um hvar hagsmunabandalögin liggja í þessari deilu. Ríkisstjórnin getur ekki krafist þess að sjómenn aflýsi verkfalli án kjarasamnings undir þessum kringumstæðum en ríkisstjórnin getur sett deilunni betri umgjörð með því að leggja frumvörpin þrjú fram. Þá vita aðilar hvar þeir standa.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hvað er á móti því að ríkisstjórnin leggi frumvörpin fram strax svo að þau komist í vinnslu? Það liggur hvort eð er fyrir að einn góðan veðurdag muni verkfalli ljúka enda hafi þá kjarasamningar tekist. Frumvörpin voru forsenda þess að sjómenn samþykktu miðlunartillögu sáttasemjara og tilvist þeirra hefur áhrif á samningaviðræðurnar nú. Er mögulegt að útvegsmenn fái að hafa áhrif á innihald frumvarpanna, að þeim verði breytt frá því sem nú er að ósk LÍÚ? Hver er hin raunverulega ástæða þess að ríkisstjórnin leggur málin ekki þegar fyrir þingið?