Staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:19:04 (5024)

1998-03-23 16:19:04# 122. lþ. 92.93 fundur 277#B staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:19]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru allir sammála um það, líka hæstv. ráðherrar, að frumvörp þriggja manna ráðuneytisstjóranefndarinnar séu verðmætur lykill að lausn þessarar deilu. Hæstv. utanrrh. hefur raunar sagt að leggja beri þessi frumvörp fram eins fljótt og verða má. Af hverju er það ekki gert?

Í viðtali við Morgunblaðið 21. mars segir hæstv. utanrrh. orðrétt svo:

,,Það var haft eftir fulltrúum sjómanna [á fimmtudag] að sjávarútvegsráðherra hefði gengist inn á það á sunnudagskvöld að leggja þetta mál fyrir þingið um leið og atkvæðagreiðslunni væri lokið og sjómenn hefðu samþykkt miðlunartillöguna,`` sagði hann. ,,Sjávarútvegsráðherra sagði mér í samtali [í gær] að hann hefði ekki lofað því og staðið á því á þeim fundi að hann væri ekki tilbúinn til þess. Jafnframt hefði hann gefið þau loforð gagnvart útvegsmönnum.``

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki svar við spurningu minni áðan og þess vegna endurtek ég hana: Er það virkilega svo að hendur ríkisstjórnarinnar í málinu séu bundnar vegna þess að hæstv. sjútvrh. hafi lofað útgerðarmönnum því að leggja ekki þessi frumvörp fram á Alþingi nema sjómenn aflýsi verkfalli? Er búið að binda ríkisstjórnina í báða skó með slíku loforði hæstv. sjútvrh. þannig að LÍÚ og LÍÚ-forustan hafi málið alfarið í sínum höndum? Ef svo er að ríkisstjórnin er bundin í báða skó vegna slíks loforðs, þá verður Alþingi og alþingismenn að sjá til þess að slík frumvörp komi fram á Alþingi Íslendinga.