Þjóðfáni Íslendinga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:29:55 (5028)

1998-03-23 16:29:55# 122. lþ. 92.14 fundur 542. mál: #A þjóðfáni Íslendinga# (notkun fánans o.fl.) frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 34 frá 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga. Sams konar frv. var einnig lagt fram á síðasta löggjafarþingi en varð ekki útrætt.

[16:30]

Meginefni frv. þessa var samið í nefnd sem skipuð var í samræmi við ályktun Alþingis frá 6. maí 1994 og í áttu sæti Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrv. forseti sameinaðs Alþingis, sem jafnframt var skipaður formaður, Andrés Pétursson, upplýsingafulltrúi hjá Útflutningsráði, og tilnefndur af því, Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, Magnús Oddsson ferðamálastjóri, tilnefndur af Ferðamálaráði, og hv. alþm. Guðmundur Hallvarðsson sem einmitt átti frumkvæði að flutningi tillögu til áðurnefndar þál. og mælti eftirminnilega fyrir henni.

Ég hygg að aflvaki tillögu hans hafi verið sá að hin tiltölulega ströngu verndarákvæði fánalaganna hafi komið í veg fyrir að þjóðfáninn yrði nýttur löglega til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu en einkum hefur útflytjendum þótt eftirsóknarvert að geta auðkennt vöru sína með upprunatákni af þessu tagi eins og tíðkast víða erlendis. Slíka notkun hafa lögin um þetta þjóðartákn okkar ekki leyft en það er reyndar allrar athygli vert að þau geyma eftir því sem næst verður komist sýnu strangari verndarákvæði en annars staðar þekkjast. Ástæður þess að verndarákvæðin urðu svo vandlega útfærð í fánalögunum hafa ekki fundist í lögskýringargögnum en þeirri alþýðuskýringu hefur verið haldið á lofti að það stafi öðru fremur af því hversu samofið fánamálið varð sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og sókn hennar til frelsis og fullveldis framan af öldinni.

Hvað sem því líður er ljóst að réttarreglur sem skírskota til almennra velsæmisviðhorfa með svo nákvæmlega útfærðum hætti sem verndarákvæði fánalaganna eru dæmi um, hljóta að koma til endurskoðunar að ákveðnum tíma liðnum og eftir atvikum að taka breytingum í samræmi við ríkjandi réttarvitund á hverjum tíma. Sú endurskoðun tel ég að hafi verið um margt orðin tímabær og nefni því til vitnis bæði þá umræðu sem varð um áðurnefnda þáltill. og samþykkt hennar á hinu háa Alþingi sem og þá ásókn sem orðið hefur í að nota fánann í ýmsum tilgangi og ýmis dæmi um vafasama meðferð hans á undanförnum árum sanna. Þess vegna var það að nefnd þeirri sem skipuð var í þessu skyni var ekki einasta falið að endurskoða verndarákvæði fánalaganna heldur taldi ég og nauðsynlegt að allt regluverkið um meðferð hans og notkun yrði yfirfarið í heild sinni. Tillögur nefndarinnar voru því ekki einungis í búningi lagafrv. heldur skilaði hún einnig drögum að reglugerð um málið og annars konar fyrirmælum. Niðurstöður nefndarinnar og tillögur voru á síðasta þingi lagðar óbreyttar og í heild sinni fyrir Alþingi þótt ekki teldust þær að öllu leyti löggjafarmálefni.

Engu að síður taldi ég málið þess eðlis að rétt væri að hv. alþm. hefðu það allt til glöggvunar og gætu þá látið í ljós skoðun sína á því eftir atvikum. Sami háttur er hafður á þessu nú utan að ákvæðum frv. hefur í nokkrum tilvikum verið breytt eða hnikað til í þágu skýrari framsetningar á málsmeðferðarreglum og því um líkum atriðum.

Veigamesta atriðið í frv. þessu er eins og nærri má geta sú breyting sem lögð er til að gerð verði á verndarákvæðum í 12. gr. laganna. Þess er þó fyrst að geta að 12. gr. samanstendur af sex málsgreinum. Lagt er til að fyrstu þrjár þeirra standi óbreyttar. Þar er fyrst um að ræða almennt verndarákvæði í 1. mgr. sem mælir fyrir um að enginn megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki, en það síðan nánar útfært í næstu þremur málsgreinum. Tvær hinar fyrstu þeirra eru einnig óhreyfðar þannig að óheimilt verður eftir sem áður að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana, eða sem auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkum eða öðru þess háttar. Jafnframt skal stjórnmálaflokkum áfram vera óheimilt að nota þjóðfánann í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosningar. Að gildandi lögum er loks óheimilt að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarningi, umbúðir um eða auglýsingu á vörum. Þar er komið að því bannákvæði sem í 9. gr. frv. er lagt til að aflétt verði um annað en firmamerki á þann hátt að slík notkun verði heimiluð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ákveðin verða með reglugerð. Þau skilyrði eru kynnt í 19. gr. reglugerðardraga sem birt eru sem fskj. II með frv. og gera ráð fyrir að starfsemi sú er í hlut á fullnægi tilteknum gæðakröfum. Þegar á allt er litið hlýtur traustasta markaðssetningin jafnan að felast í gæðum vöru og þjónustu. Með því að gera ákveðnar gæðakröfur til þeirra hluta sem leitað er eftir leyfi til að auðkenna með fánanum er hér leitast við að samræma og tryggja eins og kostur er að notkun hans til markaðssetningar skerði í engu þá helgi og virðingu sem fánanum ber. Með þetta að markmiði hlýtur það að vera af hinu góða að fáninn sé notaður í þessu skyni þegar þess er jafnframt gætt að honum sé engin óvirðing gerð og hann ekki tengdur því sem enginn sómi er að.

Á hinn bóginn þótti ekki fært að heimila notkun fánans í firmamerkjum í ljósi þess hve rekstur fyrirtækja getur verið margbreytilegur og breyst frá einum tíma til annars. Sum rekstrarsvið fyrirtækja kunna þannig að uppfylla ákveðnar gæðakröfur meðan önnur gera það ekki og sama getur átt við um stjórnun þeirra til lengri tíma.

Við 12. gr. er loks skeytt nýrri málsgrein sem tekin er úr samkeppnislögum um bann við notkun þjóðfánans á vörur af erlendum uppruna af augljósum ástæðum. Þetta ákvæði var óbreytt tekið í samkeppnislög úr eldri lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti en rétt þykir að færa það í fánalögin til að safna þar á einn stað öllum réttarreglum um þjóðfánann. Í ljósi þess að sú meginbreyting sem hér er lögð til felur í sér að heimilt verður að nota fánann með öðrum hætti en venjulegast er, þ.e. til flöggunar, þykir rétt að taka af öll tvímæli um gildissvið laganna og ná jafnframt til hvers kyns annarrar notkunar. Þannig er sérstaklega á því tekið í 8. gr. frv. að lögin taki jafnframt til hvers kyns skírskotana eða eftirlíkinga af þjóðfánanum án tillits til þess á hvaða formi hann birtist, t.d. á prenti eða á skjá.

Þriðja atriðið sem ég vil víkja sérstaklega að er hvernig háttað er meðferð meintra brota á lögunum en ákvæði laganna er þetta varða hafa ekki verið svo skýr sem skyldi. Í 14. gr. laganna er mælt svo fyrir að brot á lögunum sæti ákveðnum viðurlögum. Þegar grunur leikur á að lögin hafi verið brotin fer því um meðferð slíks máls að hætti opinberra mála, það sætir með öðrum orðum rannsókn af hálfu lögreglunnar og eftir atvikum saksókn af hálfu ákæruvaldsins. Í 8. gr. laganna hefur hins vegar verið mælt fyrir um það frávik frá reglugerð um meðferð opinberra mála að úrskurða skuli um ágreining um rétta notkun fánans í Stjórnarráðinu, þ.e. í forsrn., eftir að mál er varða þjóðfánann voru færð þangað. Til að taka af allan vafa um að ráðuneytið geti nýtt sér rannsókn lögreglunnar í þessu skyni þykir rétt að hnykkja á því sérstaklega í 5. gr. frv.

Að öðru leyti eru lagðar til óverulegar breytingar á lögunum sjálfum. Mál er varða þjóðfánann voru eins og önnur þjóðleg málefni flutt til forsrn. við gildistöku laga um Stjórnarráð Íslands og reglugerðar um sama 1. jan. 1970, og leiða nokkrar breytingar lagatextans að því. Þá er lagt til að úrelt ákvæði um fána hafnsögumanns falli brott sakir notkunarleysis en í þess stað komi óbreytt ákvæði forsetaúrskurðar um fána forseta Íslands sem rétt þykir að getið sé í þessum lögum. Ákvæði um tollfána heldur sér óbreytt en brott fellur ákvæði um sérstakan póst- og símafána. Þessi starfsemi hefur nú að langstærstum hluta verið gefin frjáls og er að öllu leyti sinnt af fyrirtækjum sem rekin eru á einkaréttarlegum grundvelli. Þykir því bæði óþarfi og jafnvel óviðeigandi að slík starfsemi hafi sérheimild til að auðkenna sér þjóðfánann með eigin merki í honum. Sú heimild var og bundin við tjúgufánann, eða klofinn fána, sem eingöngu er ætlaður til nota fyrir opinberar stofnanir. Þegar ríkisrekin fyrirtæki hafa verið færð úr opinberu og yfir í einkaréttarlegt rekstrarumhverfi á heldur ekki við að þau noti áfram ríkisfána.

Samhliða frv. þessu eru eins og áður segir kynntar í fylgiskjölum tillögur að breytingum á stjórnvaldsfyrirmælum um þjóðfánann. Annars vegar er lagt til að safnað verði og sameinað í eina reglugerð ýmsum reglum og venjum sem skapast hafa um meðferð og notkun fánans og hins vegar er lagt til að gefin verði út ný auglýsing um liti þjóðfánans, í öðrum litastiga en nú gildir. Er það m.a. nauðsynlegt í ljósi þess að gildandi auglýsing skilgreinir fánalitina aðeins í litastiga fyrir textíl- eða tauliti, þ.e. fyrir fána til flöggunar, en af þeirri rýmkun sem lagt er til að verndarákvæði fánalaganna taki, hlýtur óhjákvæmilega að leiða að bjóða verður upp á nánar útfærðar skilgreiningar fyrir prent- og skjáliti jafnframt. Geymir sú tillaga sem hér fylgir í fylgiskjali I slíkar skilgreiningar sem útfærðar hafa verið í samráði við úrval sérfræðinga á þessu sviði, þar á meðal frá Iðntæknistofnun, út frá þeim heimildum sem varðveittar eru um tillögur fánanefndarinnar frá 1944 og vilja löggjafans þegar fánalögin voru samþykkt það ár.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. heldur árétta aðeins það meginatriði þess að færa út í frumvarpsbúning þann vilja Alþingis sem birtist í ályktun þess frá 6. maí 1994 að auka frjálsræði um notkun fánans í þágu eflingar og framdráttar atvinnulífi og efnahag landsmanna án þess þó að skerða í nokkru þýðingu hans sem tákns og ímyndar þjóðarvitundar og fullveldis. Þetta hygg ég að tekist hafi í frv. og leyfi mér því að leggja til að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég einnig fram frv. til laga um skjaldarmerki Íslands sem samið var af sömu nefnd og falið var að fjalla um breytingar á fánalögunum en það frv. varð heldur ekki útrætt þá. Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir að eins ítarlega og fánalögin mæla fyrir um vernd þjóðfánans hafa engin slík ákvæði verið sett skjaldarmerkinu til verndar eða nokkrar reglur um meðferð þess og notkun, hvorki fyrir stjórnvöld né almenning, ef frá er skilinn áskilnaður samkeppnislaga um að merkið megi ekki nota í heimildarleysi við framboð vöru eða þjónustu. Aðrar réttarreglur um skjaldarmerkið hafa því aðeins verið í forsetaúrskurði um gerð þess og útlit, nr. 35 frá 17. júní 1944.

Vitaskuld er það hins vegar svo að ríkisskjaldarmerkið hlýtur fyrst og fremst að vera merki og tákn ríkisins eða þess sem falin er handhöfn ríkisvalds til að auðkenna með skjöl og annað það sem frá ríkinu stafar. Engu að síður hafa menn þóst merkja að notkun þess er nokkru almennari en svo að hún taki einungis til handhafa opinbers valds. Kemur það m.a. til af því að hin títtnefndu verndarákvæði fánalaganna hafa hamlað því að framleiðendur vöru og þjónustu hafi getað nýtt sér fánann til auðkennis um uppruna framleiðslu sinnar. Nokkur ásókn hefur því alltaf verið í að nota skjaldarmerkið í því skyni. Með því að verndarákvæði fánalaganna hafa aldrei verið túlkuð svo að þau gætu með lögjöfnun náð jafnframt yfir skjaldarmerkið og ekkert í lögskýringargögnum með fyrrnefndu ákvæði samkeppnislaga varpað ljósi á hvaða sjónarmið eigi að leggja mati á slíkum umsóknum til grundvallar hefur notkun þess í því skyni yfirleitt verið heimiluð, enda mundu ákveðnar takmarkanir á athafnafrelsi almennings að þessu leyti helst vera reistar ef meðferð þess þætti stríða gegn almennu velsæmi, siðferðisvitund almennings eða öðrum slíkum réttarhugmyndum sem blunda í þjóðarsálinni.

Þar eð starf nefndar þeirrar sem skipuð var til að endurskoða fánalögin miða einmitt að því að rýmka heimildir til að nýta fánann í því skyni sem skjaldarmerkið hefur sumpart verið notað í hans stað fól ég nefndinni jafnframt það tímabæra verkefni að semja reglur um meðferð þess og notkun sem samboðin gæti talist mikilvægi þess sem ríkistákns og þeirrar helgi sem það á að hafa í vitund þjóðarinnar. Nefndin skilaði tillögu sinni í formi lagafrv. er hafði tvennt að markmiði. Annars vegar að tryggja stjórnvöldum ríkisins einkarétt á merkinu en hins vegar að setja þeim hinum sömu ákveðnar reglur um meðferð þess. Að athuguðu máli tel ég að sömu markmiðum verði náð með öllu einfaldari hætti en frv. þetta gerði ráð fyrir og hef af þeim sökum ákveðið að leggja það ekki fyrir Alþingi á ný. Þess í stað beini ég því til hv. allshn. að taka upp í frv. það er ég hef nýlokið við að mæla fyrir einfalt ákvæði er tryggi ríkinu þann einkarétt á merkinu er því hefur ávallt borið. Reglur um meðferð þess og notkun af hálfu stjórnvalda lúta hins vegar aðeins innri málefnum ríkisins og þarf ekki lagaboð til slíkrar reglusetningar. Slíkar reglur mun ég því sjálfur setja, fallist nefndin á að taka upp tillögu mína og tillaga nefndarinnar verði að lögum.