Þjóðfáni Íslendinga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:52:56 (5030)

1998-03-23 16:52:56# 122. lþ. 92.14 fundur 542. mál: #A þjóðfáni Íslendinga# (notkun fánans o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afar merkilegt frv. Nú gerist það að við tökum til umræðu á Alþingi frv. til laga sem á engan hátt er hægt að flokka niður sem meiri hluta stefnumál eða sem mál stjórnarinnar gagnvart stjórnarandstöðu vegna þess að þetta mál er þeirrar tegundar sem við hljótum að ræða saman í miklu bróðerni og hafa skoðun á hvernig er, þ.e. hvort einhvers staðar þurfi að kveða fastar að og mál sem virkilega á að vera samkomulag um hvernig afgreitt er frá hv. Alþingi.

Lögin eða frv. sem er breyting á lögunum eins og hér hefur komið fram fjallar fyrst og fremst um breytingar varðandi gerð, meðferð og notkun þjóðfána okkar. Auðvitað er verið að opna þarna á veigamiklar breytingar, þ.e. heimildina til þess að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé starfsemi sú sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir með reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð, svo að ég vitni til ákvæða í 9. gr. frv.

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra sem voru fremur mótfallin þessum hugmyndum þegar þær voru reifaðar á sínum tíma á Alþingi. Ég óttaðist að ef við gerðum breytingar á lögum um þjóðfána okkar og færum að heimila að hann væri notaður í umbúðir, auglýsingar eða annað slíkt, þá mundum við skjótlega missa tökin á því máli og kannski lenda í því sem við sjáum í mörgum öðrum löndum svo sem eins og Bandaríkjunum þegar við sjáum vörur sem maður hefur á tilfinningunni að gerðar séu úr fánanum. Það geta verið klæði sem eru eiginlega bara fáninn eins og hann leggur sig og það geta verið sængurföt svo að ég nefni eitthvað og virkar mjög óviðfelldið fyrir okkur sem höfum haft strangari reglur og lítum þjóðfánann með nokkuð mikilli virðingu þó við höfum ekki notað hann eins mikið og margar aðrar þjóðir.

Hins vegar verð ég að segja, virðulegi forseti, að þegar ég hef skoðað þetta frv. þá finnst mér vera þannig tekið á þessu máli að ég get alveg fallist á það. Mér finnst að vandað hafi verið til verksins hvað varðar rýmri notkun til viðskiptaþarfa eins og maður segir og vil ég lýsa ánægju með að nokkuð vandlega hefur verið haldið á málum þar. En ég ætla aðeins að koma að því síðar þegar ég fer að kíkja aðeins greinargerðina. Þegar ég nefni greinargerðina vil ég líka taka það fram að það er svo oft að við fáum frumvörp um breytingar á lögum þar sem vísað er til þess að sett verði reglugerð um lögin sem verið er að breyta og að reglugerð verði breytt, en við fáum ekki að sjá reglugerðina. Stundum er óskað eftir því af nefndum þingsins að ef drög að henni liggi fyrir þá komi sú reglugerð til nefndarinnar. En oftast er það svo að lögin eru afgreidd frá Alþingi án þess að við vitum hvernig viðkomandi reglugerð verður. Ef til vill er það sjálfsagt að reglugerð um þjóðfánann komi fyrir þingið en engu að síður vil ég lýsa því yfir að mér finnst það afar mikilvæg að í frv. er birt tillaga að reglugerð og hún fylgi fyrir okkur til að fara yfir og þannig vil ég sjá vönduð vinnubrögð. Virðulegi forseti. Þess vegna hrósa ég gerð þessa frv. sem hæstv. forsrh. leggur fram hér.

Það er vissulega ánægjulegt að geta komið í ræðustól Alþingis með góð orð um vönduð vinnubrögð og hrósað einhverjum sem maður annars er gjarnan að mæla gegn og andmæla frumvörpum frá. Ég er því afskaplega ánægð að geta komið á jákvæðu nótunum í ræðustól.

Hins vegar velti ég vöngum yfir ýmsu við lestur frv. Ég velti því fyrir mér sem nefnt er í 6. gr. frv., þar sem segir að í stað dómsmrn. verði það forsrn. sem fer með mál er varða fánann. Það er sagt að það sé gert til samræmis við auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. En það kom fram hjá þeim ræðumanni sem á undan mér talaði að e.t.v. gæti eftirlitið orðið vandasamara þar sem þessi mál yrðu flutt frá dómsmrn. Það væri áhugavert að heyra aðeins nánar frá hæstv. forsrh. um það að hvaða leyti það var skoðað ef einhver vandkvæði kæmu í ljós við þessa breytingu.

Mér finnst 9. gr. frv. um breytingu á 12. gr. laganna markverðust, það er veigamesta breytingin af því að um þau mál mundi helst vera ágreiningur hjá okkur. Ég sagði áðan að ég ætlaði að koma aðeins nánar að því. Þegar maður lítur á greinargerðina og les það sem sagt er um tillögu að reglugerð um notkun og meðferð þjóðfána Íslendinga þá segir að enginn megi óvirða fánann, hvorki í orði né verki. Engin merki má hafa í fánanum nema heimiluð. Sýnishorn af réttum litum og hlutföllum fánans skulu vera til sýnis o.s.frv. Bannað er að hafa á boðstólum, selja eða leigja aðra fána en þá sem gerðir eru með réttum litum og hlutföllum o.s.frv. Sagt er hvernig óheimilt er að nota fána sem ekki eru gerðir í samræmi við sýnishorn og hvernig óheimilt er að draga á stöng fána sem er upplitaður, óhreinn, trosnaður eða skemmdur. Þetta er afskaplega gott ákvæði.

[17:00]

Síðan er talað um að óheimilt er nota fánann sem einkamerki einstaklinga, félaga og stofnana, og óheimilt er einstökum stjórnmálaflokkum að nota fánann í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosningar. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki og óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum.

Ég nefndi áðan að mér finnst versta dæmið um notkun á fána vera þegar jafnvel eitt sængurver er eins og fáninn allur og því spyr ég forsrh.: Er eitthvað í frv. sem afstýrir því að slíkt gæti gerst? Nú hef ég lesið hér upp úr 17. gr. hvað er óheimilt og ég veit að varðandi auglýsingar og firmamerki, söluvarning og umbúðir er kveðið á um í 9. gr. og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er með leyfi forsætisráðuneytisins að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé starfsemi sú sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir með reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.``

Svo er aftur vísað til þess að það er óheimilt að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum.

Þess vegna spyr ég: Er tryggt að í lögunum séu ákvæði sem banna ef t.d. yrði framleitt hér á landi, þó það sé ótrúlegt, einhver slík vara sem er eiginlega fáninn og er sett á markað? Það er mjög mikilvægt að það sé vegna þess að það er eitt af því sem ég gæti ekki hugsað mér að sjá hér. Áðan var nefnt að oft væri verið að ræða um hvað markaðurinn segir eða fólk vill. Það er til fólk sem vill svona hluti og það gæti orðið þannig að einhver á markaði teldi sér hag í því að búa til slíkar vörur. Ég vil gjarnan að tryggt sé að við lendum ekki í að fá slíkar vörur í verslanir og tel mikilvægt að því sé afstýrt strax í lögunum eða í reglugerðinni.

Annað vil ég nefna sem mér finnst afar mikilvægt og það er umfjöllun um fánalitina. Mér finnst afar mikilvægt, bæði að auglýsingin um liti fánans og að búið sé að koma sér niður á tillögu að auglýsingu, hvaða kerfi eigi að nota, og þarna á að reyna að tryggja að þeir íslensku fánar sem við sjáum blakta við hún séu allir í sama lit, a.m.k. nokkurn veginn þannig að það sé ljóst að þetta sé sami fáninn. Á þessu hefur verið misbrestur. Blái liturinn hefur verið allt frá einhvers konar himinbláum og niður í mjög dökkbláan lit og ef maður sæi nokkra íslenska fána hlið við hlið væri vart hægt að hugsa sér að þetta ætti að vera sami þjóðfáninn.

Auðvitað gerir maður sér ekki grein fyrir því þegar maður sér þessa tillögu að auglýsingu hvernig blái liturinn er. Það gæti svo sem gerst að þegar ég sæi fána með lit samkvæmt þessari auglýsingu blakta þá mundi ég segja: Heyrðu, ég hélt að blái liturinn í íslenska fánanum væri allt annar. En ég treysti því að þetta fólk hafi farið mjög ítarlega ofan í málið og að liturinn á fánanum sem þarna er lagður til sé í samræmi við það sem hefð okkar er fyrir litum fánans. Þetta segi ég um leið og ég tek undir það sem Svavar Gestsson sagði áðan, í svona vinnu tel ég að eigi að velja fólk þverpólitískt. Það á að vera þannig. Eins og ég sagði í upphafi eru sum mál þess eðlis að við eigum að vinna saman að því og það á ekki að vera þannig að menn verði svo uppteknir af því sem þeir eru að láta vinna á vegum ráðuneytis síns að þeir taki bara einsleitt fólk til þeirrar vinnu.

Engu að síður sýnist mér, virðulegi forseti, að hér hafi tekist nokkuð vel til með frv. og það er fyrst og fremst spurning mín hvort tryggt sé að ekki sé hægt að framleiða vörur hér sem beri útlit fánans af því ég sé það hvorki í reglugerðinni né í lagasetningunni. Að öðru leyti tel ég að það hafi verið farið varlega með heimildirnar sem opnað er á í breytingu á 12. gr. og ég er mjög ánægð með það. Ég vona að málið verði skoðað mjög vel í allshn. og full sátt verði um málið þegar það verður afgreitt þaðan vegna þess að mér finnst það mikilvægt.