Þjóðfáni Íslendinga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 17:17:47 (5033)

1998-03-23 17:17:47# 122. lþ. 92.14 fundur 542. mál: #A þjóðfáni Íslendinga# (notkun fánans o.fl.) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[17:17]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir við mál þetta og málefnalegar umræður um það. Það er hárrétt sem fram hefur komið hjá þingmönnum að málið er mjög vandmeðfarið. En það var niðurstaða þingsins og þess vegna er nú málinu hreyft í ráðuneytinu að sjálfsögðu, að tími væri kominn til breytinga. Við stæðum verr að vígi með því að binda okkur við þrengri reglur um fánann en allir aðrir, heldur en að reyna að halda utan um málið.

Það var að því fundið af tveimur hv. þm. að af fimm nefndarmönnum væru a.m.k. þrír sjálfstæðismenn og hefði verið ástæða til að hafa nefndina þverpólitíska og það er sjálfsagt alveg rétt (RG: Betra.) hvað það varðaði. Ég vil þá taka fram að það var nú ekki af þeim ástæðum sem þessir þrír voru til sögunnar kvaddir. Formaðurinn er fyrrum forseti sameinaðs þings sem þótti vel við hæfi. Annar af þessum þremur hafði verið aðalhvatamaður að málinu og viljað mjög rýmka hér reglur. Hinn þriðji hafði hins vegar opinberlega varað við því að of geyst yrði farið í að rýmka þessar reglur og þótti mér því fara vel á til jafnvægis við hinn sem vildi rýmka mjög, að kalla hann til setu í nefndinni, svona til að fara bil beggja. En sjálfsagt er athugasemdin sem gerð var hér alveg rétt engu að síður.

Varðandi það sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi um það sem kynni að vanta á í 17. gr. reglugerðartillögunnar um aðferðir sem lægju nærri fánanum er tekið fram í 8. gr. frv. að lögin taki jafnframt til hvers kyns skírskotana eða eftirlíkinga af þjóðfánanum, án tillits til þess á hvaða formi hann birtist, þannig að ég hygg að það nálgist það sem hann var að fjalla um.

Við höfum lög, væntanlega frá 1981--1982, um þjóðsönginn sem sett voru að tilhlutan ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens í framhaldi af deilum um notkun þjóðsöngsins í tiltekinni kvikmynd. Mönnum þótti varlegra að hafa slíka lagasetningu, ekki þó eingöngu til að frysta þjóðsönginn heldur til að tryggja að honum væri sýnd nægjanleg virðing. Það atriði kemur einmitt fram í greininni sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi, þ.e. lokasetningin sem hún las kæmi í veg fyrir að forsrn. myndi nokkurn tímann heimila að sængurver yrði saumað nánast upp úr fánanum. Það væri óvirðing og því yrði ekki heimilað að gera slíkt og hægt er að koma í veg fyrir það samkvæmt þessum lögum.

Varðandi það sem hv. 14. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, sagði áðan, þá er rétt að vekja athygli á því að fyrirrennari minn, Steingrímur Hermannsson, gekkst fyrir því árið 1990 eða snemma árs 1991 að gefinn væri út ritlingur um fánann, ansi góður ritlingur þar sem gerð var grein fyrir sögu fánamálsins frá upphafi, helstu staðreyndum hvað það varðaði og síðan eru þar skýringarmyndir um það hvernig brjóta eigi saman fánann og hvernig eigi að draga að húni, hvernig eigi að hnýta fánabönd við fánann og þess háttar. Jafnframt er tekið fram hvar fáninn skuli vera í fylkingu annarra fána, erlendra fána og hvernig skuli bera hann í skrúðgöngum og þess háttar, lengd fánastangar í hlutfalli við flaggið og fleira í þeim dúr sem of langt yrði upp að telja. Reyndar er að auki í þeirri bók greinargerð um skjaldarmerkið og reyndar um fálkaorðuna og viðurkenningarpeninga forsetaembættisins og einhverja fleiri þætti. Þetta er ágætt rit sem þyrfti að endurskoða ef þetta frv. verður að lögum og koma víðar á framfæri.

Ég hygg reyndar að ágætlega hafi verið gerð grein fyrir litaskalanum af hálfu þess þingmanns sem síðastur talaði, um það hvernig þessu er haldið til haga. Það eru tiltölulega fáir aðilar sem koma að framleiðslu fánans og við í forsrn. höfum orðið vör við að mikill vilji er til þess af hálfu slíkra aðila að fá réttar og góðar upplýsingar. Fólk vill gera vel í öllum þorra tilvika og því er mikilvægt fyrir ráðuneytið að hafa lögvarðar skýringar á því hvernig skuli með fánann fara varðandi lit og form, aðallega þá lit, en á það hefur skort að við höfum getað bent á litaheimildir sem ganga upp því þær heimildir sem nú eru fyrir hendi ganga ekki upp gagnvart auglýsingastofum og slíkum aðilum. Þar þurfti því samræmingar við svo tæknin fái að njóta sín.

Svo ég fari í hitt gervið og gagnrýni, sem kannski er nú skrýtið, eitt ákvæði frv. þá er það þannig að sérstaklega er tekið fram að stjórnmálaflokkar megi ekki notfæra sér fánann í áróðursskyni. Ég held að flestir menn skilji alveg sæmilega hvað átt er við með þessu. Ég get nefnt sem dæmi að Sjálfstfl. hélt skemmtun á Ísafirði og var auðvitað með sína fána í fánaborgum og svo einhver skemmtiatriði inni. Þar fyrir utan var fánastöng. Það var venja hvað sem gerðist í þessu íþróttahúsi til skemmtunar að íslenski fáninn var dreginn að húni og það var gert í þessu tilfelli. En hinn varkári sýslumaður Ísfirðinga sendi lögregluna og dró niður fánann af flaggstönginni fyrst svona voðalegt fyrirbæri sem stjórnmálaflokkur var inni. Ég sé t.d. ekki að þetta ætti að túlka svo að til að mynda á landsfundum flokka eða þess háttar að rangt væri að virðulega yrði farið með fánaborgir þar í kring til hátíðabrigða. Það finnst mér allt annað mál en að nota fánann með einhverjum ógeðfelldum hætti í áróðri í auglýsingum, blöðum eða í sjónvarpi eða að viðkomandi flokkur, hver sem hann væri, reyndi að helga sér fánann umfram aðra flokka. Það gæti ekki gengið. En það fer örlítið í taugarnar á mér að líta á stjórnmálaflokka sem hálfgerð fyrirbæri sem ekki má láta jafngöfugan hlut og íslenska fánann komast í snertingu við. Ég er ekki alveg sáttur við það. Ég tek fram að ég er ekki beint að gagnrýna frv. Ég er að reyna að útskýra a.m.k. það sem fyrir mér vakir hvað þetta varðar, þ.e. ef til siðs er að flagga á fánastöng fyrir utan þar sem um er að ræða skemmtun, rokkskemmtun eða hvað sem er, þá eigi ekki þegar að draga það niður þótt stjórnmálaflokkur haldi fund fyrir innan. Það finnst mér ekki passandi þótt ég sé ekki að áfellast sýslumanninn fyrir varúðarreglu hvað þetta varðaði. En þannig held ég að þetta eigi að vera.

Ég vona að nefndin taki þessar athugasemdir sem komið hafa frá hv. þingmönnum til athugunar. Ég vona að málið fái framgang fyrir þinglokin, en mun ekki að mínu leyti knýja neitt á um það ef menn vilja taka sér aftur rúman tíma til að fara yfir málið.