Lágmarkslaun

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 17:26:25 (5034)

1998-03-23 17:26:25# 122. lþ. 92.15 fundur 307. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[17:26]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vonast til að forsrh. sé viðlátinn í húsinu og hlýði á það sem ég hef um þetta mál að segja. Það er búið að reyna að koma þessu máli á dagskrá síðan í upphafi þings eftir áramót. Þá var beðið um flýtimeðferð á málinu og ...

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um að hæstv. forsrh. mun vera farinn úr húsinu. Hann þurfti að vera við athöfn annars staðar en kemur kannski síðar.)

Herra forseti. Mér þykir þetta mjög miður. Það er búið að reyna hvað eftir annað að koma þessu máli á dagskrá og það hefur ekki verið hægt að koma því fram vegna þessarar stöðu, að hæstv. forsrh. hefur ekki séð sér fært að vera við. Málið heyrir beint undir hæstv. forsrh. og þess vegna er mjög nauðsynlegt, ef hægt á að vera að fá svar við meðferð á þessu máli, að hann sé við. Ég sé því ekki annað en að einu sinni enn verði að skoða hvernig eigi að fara með málið. Ég sé ekki annað en ég verði að óska eftir því við forseta að þetta mál verði tekið til sérstakrar umfjöllunar hjá hæstv. forseta þingsins og fá umræðu um hvernig það megi vera, þegar búið er að óska eftir því sérstaklega að forsrh. verði viðstaddur við þetta mál, að þegar tækifæri gefst til að ræða við hann, þá hverfi hann á brott. Herra forseti. Mín beiðni lýtur að því að forsrh. láti skoða þau rök sem ég ætla mér að setja fram fyrir því að lágmarkslaun verði lögbundin á Íslandi.

Herra forseti. Ég ætla mér að setja fram rök fyrir því að hagfræðingum á Íslandi beri undir forustu hæstv. forsrh. að skoða þetta mál vegna þess að í 28 löndum heimsins hafa nú þegar verið lögbundin lágmarkslaun og það hefur komið í ljós alls staðar þar sem lágmarkslaun hafa verið lögbundin að þar hafa þau skilað betri árangri fyrir fjölskyldur, fyrir heimilin og fyrir þjóðríkin.

(Forseti (GÁ): Forseti vill nefna við hv. þm. að hæstv. forsrh. mun vera á lykilfundi í sambandi við sjómannadeiluna. Forseti hafði að vísu ekki heyrt um þær óskir sem hv. þm. hefur en býður nú hv. þm. að fresta málinu.)

Herra forseti. Ég sé ekki annað fært en að fresta þessu máli. Ég sé ekki að möguleiki sé á öðru en ræða málið við hæstv. forsrh. vegna þess að með þetta mál þarf að fara sérstalega og það verður að koma svar frá hæstv. forsrh. um það hvað hann vill gera. Ef í ljós kemur að hann er á móti málinu þarf að knýja þetta mál einhvern veginn í gegnum þingið.