Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:01:28 (5038)

1998-03-23 18:01:28# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 946 sem er 557. mál þingsins, um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

Frv. er samið í viðskrn. Samkvæmt því skal stofna hlutafélag um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum.

Meginástæða þess að farið er út í stofnun hlutafélags um reksturinn er sú að með þeim hætti er ríkisstjórninni gert kleift að mæta tilboði sem bátaábyrgðarfélögin, viðskiptaaðilar Samábyrgðarinnar og starfsmenn hafa gert í hlut ríkissjóðs í félaginu.

Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir afnámi skyldutryggingar þilfarsbáta undir 100,49 rúmlestir brúttó með niðurfellingu laga um bátaábyrgðarfélög.

Samábyrgð Íslands á fiskiskipum var stofnuð með lögum nr. 54/1909. Henni var þá ekki lagt til sérstakt stofnfé úr ríkissjóði né gert ráð fyrir að það kæmi frá öðrum. Henni var hins vegar tryggð ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum sínum upp að 200.000 kr. Auk þess lagði ríkissjóður Samábyrgðinni til fjármuni, allt að 25.000 kr., vegna kostnaðar við stofnun og stjórn hennar.

Samkvæmt fyrstu lögunum um Samábyrgðina skyldi hún vera gagnkvæmt tryggingafélag. Með lögum nr. 23/1921 voru þau ákvæði laga nr. 54/1909 sem kváðu á um að hún væri gagnkvæmt tryggingafélag felld brott og ábyrgð ríkissjóðs vegna skuldbindinga hennar hækkuð úr 200.000 kr. í 800.000 kr. Bar ríkissjóður einn ábyrgð á skuldbindingum Samábyrgðarinnar allt til 1967 er fyrsta verulega breytingin var gerð á lögunum.

Árið 1941 er ríkissjóði gert að leggja Samábyrgðinni til stofnfé, 500 þús. kr. og árið 1947 er ríkissjóði enn gert að leggja henni til viðbótarstofnfé, 1,5 millj. kr. Frá upphafi og fram til 1967 voru sérstök ákvæði í lögunum um að ef Samábyrgðinni yrði slitið skyldi ráðstafa eignum hennar til Fiskveiðasjóðs.

Árið 1967 eru sett ný lög um Samábyrgðina, eins og áður sagði, lög nr. 47/1967. Með þeim lögum er ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum félagsins felld brott og sömuleiðis ákvæðin um afdrif eigna félagsins við félagsslit.

Árið 1976 voru enn sett ný lög um Samábyrgðina, lög nr. 19/1976. Breytingar á lögunum áttu fyrst og fremst rætur að rekja til nýrra laga um vátryggingastarfsemi, einkum ákvæða um Tryggingaeftirlitið og nýrra sérstakra laga um bátaábyrgðarfélögin sem samtímis voru samþykkt á Alþingi og eru lög nr. 18/1976. Þau lög gerðu ýmis ákvæði laganna um Samábyrgðina óþörf.

Gildandi lög um Samábyrgðina voru sett árið 1978, lög nr. 37/1978. Helsta breytingin sem þá var gerð er sú að bráðafúatryggingin sem sett var inn í lögin árið 1967 var felld niður en í hennar stað kom sérstök tryggingargrein innan Samábyrgðarinnar, Aldurslagasjóður fiskiskipa. Gildandi lögum var breytt með lögum nr. 40/1990 og var þá felldur niður sá kafli laganna sem fjallaði um Aldurslagasjóð. Þá má einnig nefna breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 116/1993 vegna samnings um hið Evrópska efnahagssvæði.

Lögin um bátaábyrgðarfélög eru upphaflega frá árinu 1938 en þá var skyldutrygging á fiskiskipum, 70 smálestum brúttó eða minni, lögfest, sbr. lög um vátryggingarfélög fyrir vélbáta, nr. 27/1938. Þá voru nokkur bátaábyrgðarfélög þegar starfandi en þeim fjölgaði verulega við þessa lagasetningu. Lögin hafa breyst nokkuð í tímans rás. Lögin voru endurskoðuð í byrjun fimmta áratugarins í ljósi reynslunnar af rekstri félaganna, sbr. lög nr. 32/1942. Þá var skyldutryggingin útvíkkuð og hún látin ná til vélbáta með þilfari allt að 100 smálestum að stærð. Enn voru lögin endurskoðuð og var þá heiti laganna breytt í lög um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip.

Gildandi lög um bátaábyrgðarfélög eru nr. 18/1976. Er það samsett útgáfa laga nr. 41/1967 og breytinga á þeim lögum, nr. 91/1975. Með lögunum frá 1975 var stærðarmörkum breytt úr 100 rúmlestum brúttó í 100,49 rúmlestir brúttó og var það gert til að taka af öll tvímæli um stærðarmörk þeirra skipa sem féllu undir skyldutrygginguna. Ýmsar breytingar voru einnig gerðar vegna tilkomu laga um vátryggingastarfsemi og vegna starfsemi Tryggingaeftirlits. Um allnokkurt skeið hefur skyldutrygging sú sem lögð er á herðar eigenda vélbáta með þilfar, 100,49 rúmlestir brúttó að stærð eða minni, verið gagnrýnd. Ýmsir hafa talið þessa skyldutryggingu tímaskekkju, enda var henni komið á er bátafloti landsmanna var annar en hann er nú og aðstæður aðrar. Á síðustu árum hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna ítrekað ályktað um það á fundum sínum að afnema bæri skyldutryggingu skipa undir 100 lestum og gefa þær frjálsar. Landssamband smábátaeigenda hefur og ályktað í sömu veru. Í kjölfar samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði misstu bátaábyrgðarfélögin einkarétt sinn á því að taka umrædda báta til tryggingar og skipta landinu upp í markaðssvæði. Starfa þau nú í samkeppni við önnur vátryggingarfélög á þessum markaði og þykir því ekki tilefni til að hafa sérlög um þau lengur.

Bátaábyrgðarfélögin eru nú fjögur talsins, Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta, Bátatrygging Breiðafjarðar, Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga og stærsta bátaábyrgðarfélagið, Vélbátatrygging Eyjafjarðar, sem nýlega fékk starfsleyfi til alhliða vátryggingastarfsemi og skipti um nafn, heitir nú Vörður vátryggingafélag. Formlega telst það þó enn þá bátaábyrgðarfélag.

Á sl. sex árum hefur félögunum fækkað um þrjú. Fulltrúar frá bátaábyrgðarfélögunum, viðskiptaaðilar Samábyrgðarinnar og starfsmenn hafa gert mér fyrir hönd ríkissjóðs tilboð í eignarhluta ríkisins í félaginu. Hljóðar tilboðið upp á 190 millj. kr. Með tilboði þessu er áratugaágreiningur um eignarhald á Samábyrgðinni leystur. Með tilboðinu viðurkenna fulltrúar sjávarútvegsins eignarrétt ríkissjóðs og ríkissjóður viðurkennir að ekki sé óeðlilegt að tekið sé tillit til að hluti viðskiptavildar fyrirtækisins sé viðurkenndur sem eign viðskiptaaðilanna, enda hafa bátaábyrgðarfélögin í hendi sér hvort þau halda áfram viðskiptum við Samábyrgðina sem endurtryggjanda.

Herra forseti. Ég tel rétt að reifa nánar ágreininginn um eignarhaldið á Samábyrgðinni. Fulltrúar bátaábyrgðarfélaganna hafa í gegnum tíðina haldið því fram að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum væri í eðli sínu gagnkvæmt vátryggingarfélag og því í eigu viðskiptamanna hennar. Til þess að reyna að átta sig á stöðu félagsins hefur tvívegis verið aflað lögfræðiálita um það hver ætti Samábyrgðina. Það fyrra er frá árinu 1989 og var unnið af Jóni Ingimarssyni, þáverandi skrifstofustjóra í heilbr.- og trmrn. Hann komst að þeirri niðurstöðu að ríkið eitt hefði lagt Samábyrgðinni til fjármuni og að enginn annar aðili hefði með lögunum eða á annan hátt öðlast slík tengsl eða aðild að Samábyrgðinni að jafnað verði til eignarréttinda. Þá hefði ríkið eitt borið ábyrgð á skuldbindingum hennar frá 1921 þeim sem var ekki unnt að endurtryggja. Stóð ábyrgð þessi til ársins 1976.

Árið 1992 var Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður fenginn til að gefa álit á þessu ágreiningsefni. Í áliti hæstaréttarlögmannsins segir m.a., með leyfi forseta: ,,að Alþingi geti gert hverjar þær ráðstafanir með Samábyrgðina og eignir hennar sem það kýs. Við þær ráðstafanir verði aðeins að gæta að því að ekki séu skertir hagsmunir þeirra aðila sem eiga gild fjárhagsleg réttindi á hendur Samábyrgðinni samkvæmt samningum við hana eða á öðrum grundvelli. Að því athuguðu sýnist löggjafinn geta t.d. lagt félagið niður og látið eignir þess renna í ríkissjóð, ákveðið að breyta félaginu í hlutafélag þannig að ríkissjóður fái allt hlutafé, eða þannig að hlutafélaginu sé deilt út til bátaábyrgðarfélaganna og annarra viðskiptamanna félagsins eftir gefnum reglum.``

Eins og fyrr segir hefur nú náðst lending í ágreiningsefni þessu. Með tilboði sínu viðurkenna fulltrúar bátaábyrgðarfélaganna í reynd eignarrétt ríkissjóðs, en á móti kemur að fallist er á að tekið sé tillit til þess að viðskiptavild Samábyrgðarinnar komi að verulegu leyti í hlut bátaábyrgðarfélaganna. Með fyrirvara um samþykki Alþingis hefur ríkisstjórnin samþykkt tilboðið fyrir sitt leyti. Með samþykki sínu hefur ríkisstjórnin jafnframt ákveðið að um sölu á Samábyrgðinni muni ekki fara samkvæmt verklagsreglum um útboð og sölu ríkisfyrirtækja. Jafnvel þótt svo kynni að fara að ekki yrði af sölu ríkissjóðs á Samábyrgðinni til framangreindra aðila að þessu sinni tel ég afar mikilvægt að frv. nái fram að ganga. Með stofnun hlutafélags um Samábyrgðina væri ríkissjóður í stakk búinn til þess að bregðast við tilboðum í félagið er síðar kynnu að berast.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni óska ég þess að frv. verði vísað til efh. og viðskn.