Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:12:52 (5040)

1998-03-23 18:12:52# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:12]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. vék að í lokin sem snýr að því hvers vegna verklagsreglur ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu væru ekki nýttar í þessu sambandi. Ég reyndi að gera því skil í ræðu minni og það er fyrst og fremst vegna þess að tilboð berst frá þessum aðilum fyrir hönd, þ.e. tilboðið er undirritað af Sveini H. Hjartarsyni og Hjálmari Styrkárssyni, sem eru stjórnarmenn í Samábyrgðinni og gera þetta tilboð fyrir hönd starfsmanna, viðskiptaaðila og bátaábyrgðarfélaganna, og það verður samkomulag um 190 millj. kr. sem kaupverð. Vel kann að vera að hægt væri að reikna þetta verð hærra og því gerði ég grein fyrir að það er vilji ríkisins að selja þessum aðilum til að jafna þann ágreining sem staðið hefur áratugum saman um það hver ætti og þar af leiðandi er tekið tillit til viðskiptavildarinnar í því tilboði sem hér er gert og að einhverju leyti kemur það bátaábyrgðarfélögunum til góða. Að öðru leyti er þetta þannig að ekkert er getið um það í þessu tilboði í hvaða eignarhlutföllum Samábyrgðin mun verða þegar búið er að breyta henni og þessir aðilar hafa keypt. Fyrst og fremst eru það þessir tveir aðilar, stjórnarmenn í Samábyrgðinni, sem gera þetta tilboð fyrir hönd þessara aðila sem ég vitnaði í að framan.