Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:47:01 (5048)

1998-03-23 18:47:01# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:47]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alger misskilningur hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að bera þetta saman sem hann gerði áðan. Hann er að vísu að þjófstarta umræðu sem á að byrja á eftir um Brunabótafélagið og eignarhaldsfélag þess.

Gagnkvæm tryggingafélög eins og vélbátaábyrgðarfélögin eru eru eign þeirra sem tryggja. Hætti slíkt vélbátaábyrgðarfélag störfum og leggi niður starfsemi sína er alveg ljóst að eignunum verður skilað ef einhverjar eignir eru í höfuðstól til þeirra sem tryggðu, smábátaútgerðarmannanna. Þeir eiga félagið. Það er alveg ljóst enda er líka alveg ljóst að ef það væri mínus á höfuðstólnum bæri þeim að borga þannig að hér fer hv. þm. mjög villur vegar.

Brunabótafélag Íslands var gagnkvæmt tryggingafélag sem starfaði alveg á sama grunni eins og vélbátaábyrgðarfélögin en það gerðist bara með það félag að þau hættu starfsemi. Það hætti tryggingastarfsemi. Það hætti að starfa sem gagnkvæmt ábyrgðarfélag tryggingartaka og gerðist almennt fjármálafyrirtæki. Um það stendur deilan hér á eftir þegar kemur að því. Þess vegna ber að taka þann höfuðstól og setja hann til hinna óvirku eigenda sem verða þá virkir og taka á móti peningum sínum. Þetta er meginatriðið.

Ef við í Vélbátaábyrgðarfélagi Ísfirðinga hættum störfum og hættum að tryggja og segjum bara slútt og búið þá sit ég sem stjórnarformaður ekki á höfuðstólnum og segi: Nú ætla ég að fara að gera góðverk. Nei, það er sko allt annað. Við skiptum upp gagnkvæmum tryggingafélögum þannig að þessi samanburður hv. þm. var alrangur.