Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 19:10:23 (5055)

1998-03-23 19:10:23# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[19:10]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg klárt varðandi verðið og hefur margoft komið fram í umræðunni að af því að samábyrgðafélögin gera þetta tilboð þá er verið að taka tillit til þeirrar viðskiptavildar sem þar liggur að baki. Ég tel, ef verið væri að selja öðrum aðilum, að þá hefðu menn staðið öðruvísi að og þá hefðu menn farið eftir verklagsreglum ríkisstjórnarinnar. Þetta tók ég skýrt fram og það þarf enginn að velkjast í vafa um það. Það gerði ég þannig að þingheimi væri alveg ljóst hver aðferðin væri sem þarna væri viðhöfð. Verðið er sanngjarnt, tel ég, og ég ítreka að ég vildi gjarnan að hægt væri að ná samkomulagi um þetta.

Sé ekki samkomulag um þetta tilboð sem er ekki í raun og veru neinn partur af þingmálinu sem slíku --- það fylgir bara með frv. --- þá stendur það eftir að það þarf að breyta Samábyrgð Íslands á fiskiskipum í hlutafélag. Um það snýst þetta mál, þ.e. að breyta Samábyrgðinni og hefur ekkert með deilu um kauptilboðið sem slíkt að gera. Það er hins vegar sjálfsagt að það sé skoðað. En það á ekki að þurfa að tefja það á nokkurn hátt að menn geti tekið málið í gegnum þingið og breytt formi Samábyrgðarinnar.