Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 19:12:09 (5056)

1998-03-23 19:12:09# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[19:12]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar tilboðsgjafarnir Sveinn Hjörtur Hjartarsson og Hjálmar Styrkársson gerðu mér kvöldið 17. mars grein fyrir tilboði sínu og ég innti þá eftir því hvernig það mætti vera að ég hefði frétt af þessu í útvarpi, þá sögðu þeir að þetta hefðu verið mistök. En eftir ræðu hæstv. viðskrh. sé ég náttúrlega í hendi mér að þetta voru engin mistök. Það er alveg ljóst. Það þótti bráðnauðsynlegt til þess að ná þessu samkomulagi að ég yrði fjarlægður úr umræðunum. Það er alveg ljóst. Það var það sem var gert. Ég hef einu sinni fengið fundarboð. Ég hafði samband við ráðuneytið og sagðist geta mætt, ekki þann dag heldur daginn eftir, og hef aldrei frá þeim heyrt síðan. Ég hafði aldrei heyrt frá tilboðsgjöfunum fyrr en 17. mars, aldrei eitt einasta orð. Og að ég hafi ekki getað sinnt þeim vegna anna er náttúrlega uppspuni. Það er slíkur uppspuni að mönnunum er til skammar að hafa skrifað þetta. Ég var veðurtepptur þegar málið var tekið fyrir í þingflokki Sjálfstfl. Það voru engar annir. Ég var bara veðurtepptur. En ég var fjarlægður frá umræðunni greinilega af því að afstaða mín til málsins þótti óeðlileg og þótti erfið. Það er það sem gerðist.

Það liggur líka fyrir að ekkert samkomulag er hjá vélbátaábyrgðarfélögunum um þessi kaup. Það var ekki gert fyrr en löngu seinna. Einum og hálfum mánuði eftir að það var gert var farið að leita eftir samkomulaginu. Og mér finnst ekki klókt, herra forseti, hjá hæstv. viðskrh. að segja í lokin að ef menn fallist ekki á þetta, þá hafi hann öll ráð í hendi sér um að selja einhverjum öðrum. Það er ekki klókt að vera með svona hótanir. Það borgar sig ekki þegar menn eiga að vinna saman. Tilfellið er að ekki er hlaupið að því að selja Samábyrgðina neinum öðrum en vélbátaábyrgðarfélögunum vegna þess að án þeirra er hún ekkert.