Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 14:56:14 (5069)

1998-03-24 14:56:14# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[14:56]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég er hlynntur því að leyfilegt hámark áfengismagns í blóði ökumanns verði lækkað. Mörkin eru óþarflega há. Ölvunarakstur á ekki að eiga sér stað. Hann er glapræði og hann er nánast að segja glæpur. Ég tel eðlilegt að lækkað verði úr 0,5 í 0,2 prómill. Þá þarf enginn að velkjast í vafa um að eftir einn ei aki neinn. En nú er það svo að það fer eftir holdafari eða líkamsbyggingu hversu mikið menn þola án þess að fara yfir mörkin. Þannig gæti verið að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þyldi bara hálfan bjór meðan hv. þm. Ágúst Einarsson þyldi heilan. Fólk getur velkst í vafa um það hvar mörkin eru. Ef þau yrðu sett niður í 0,2 prómill þyrfti enginn að velkjast í vafa. Það á ekki að drekka og fara svo að keyra. Ekki neitt.

Hins vegar hefur hæstv. dómsmrh. sett málið í ákveðinn farveg með því að skipa nefnd til að gera athugun og samkvæmt því er eðlilegt að taka þetta mál um leyfilegt hámark áfengismagns í blóði upp aftur á haustþinginu að lokinni gagnasöfnun og undirbúningi eins og hæstv. dómsmrh. hefur lagt til og hv. formaður allshn. kom einnig inn á í seinni ræðu sinni. Þannig er löggjafarþingið að láta framkvæmdarvaldið vinna málefnið til þess að Alþingi geti tekið skynsamlega ákvörðun að athugunum og rannsóknum loknum. Slíkt tryggir haldgóða lagasetningu miklu fremur en að hlaupa til og breyta þessu núna rétt eftir að ráðherrann er búinn að ákveða tiltekna málsmeðferð sem kemur löggjafarvaldinu til góða í lagasetningunni síðar. Ég sé sem sagt fyrir mér gildistöku nýrra ákvæða um næstu áramót, þ.e. að nefndin, starfshópurinn, sem ráðherrann hefur skipað ljúki störfum sínum í sumar eða haust, Alþingi taki málið til meðferðar á haustþinginu og gildistaka gæti þar með orðið um næstu áramót.