Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:14:45 (5075)

1998-03-24 15:14:45# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. gat ekkert lesið það út úr orðum mínum áðan að ég væri sammála því hér og nú að leyfilegt vínandamagn í blóði væri lækkað. Auðvitað er það rétt sem hv. þm. Hjálmar Jónsson benti á áðan, að þetta er brtt. sem hér liggur fyrir þannig að það var ekki hægt að senda þetta mál til umsagnar í þjóðfélaginu eins og vaninn er með frv. sem fjalla um m.a. breytingu á umferðarlögum enda snertir það hagsmuni margra.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er mjög sérstakt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem vill vinna vel í málum, sérstaklega stjórnarfrv. sem hún telur almennt rétt að skoða vel og vandlega og á mörgum fundum, skuli ekki vilja láta skoða þetta mál ítarlegar. En það kemur svo sem ekkert á óvart þó að hún sé ekki sammála þingmönnum Sjálfstfl. Það er ekki í fyrsta skiptið sem það kemur fram.

Það vill svo til að hún nefndi formann Umferðarráðs áðan, sem jafnframt er aðstoðarmaður dómsmrh. Hann mætti á fund allshn. og upplýsti okkur um stöðu þessara mála og ýmsar rannsóknir sem hefðu átt sér stað. Það voru reyndar fleiri sem mættu á fund nefndarinnar, m.a. Jón Bjartmarz og Jónmundur Kjartansson, frá embætti ríkislögreglustjóra, og Einar Guðmundsson, frá Sjóvá-Almennum sem er forvarnarfulltrúi þar. Þeir tóku allir undir þá skoðun sem hér hefur verið sett fram að skoða þurfi þetta mál betur. Ég hygg því að þetta mál liggi alveg ljóst fyrir.