Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:20:44 (5079)

1998-03-24 15:20:44# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi það í ræðu sinni áðan að ekki stæði á henni að boða til aukafundar í allshn. ef á þyrfti að halda. (SP: Hún er búin að neita þremur.) Hv. þm. er búinn að neita þremur aukafundum í allshn. núna á einni viku, en eitt af því sem veldur okkur erfiðleikum í að afgreiða mál frá allshn., sem bíða mörg, er að stjórnarandstaðan hv. hefur ekki verið samvinnuþýð í því að koma til funda og vinna með okkur í mörgum brýnum málum sem liggja fyrir allshn. Það er sett stopp á afgreiðsluna og vinnuna vegna þess að hv. stjórnarandstæðingar vilja ekki vinna með okkur. Þetta er vandinn ... (Gripið fram í.) Já, laugardögum og hvaða dögum sem vera skal --- vegna þess að mörg brýn mál liggja fyrir hv. allshn.

Ég bendi á að hæstv. ráðherra dómsmála lýsti yfir nefndarskipaninni til að skoða þetta með prómillmagnið, vínandamagnið í blóði, áður en hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur datt í hug að koma með sína brtt. eða áður en hún kynnti hana fyrir nefndarmönnum. Það er því spurning hvort er á undan, eggið eða hænan og hvort er hvað, ef út í það er farið.

En fleira þyrfti að lagfæra í áfengislöggjöfinni og í umferðarlögum, t.d. það að ökumanni sem hefur lent í umferðaróhappi sé óheimilt að neyta áfengis nokkra klukkutíma eftir að umferðaróhappið átti sér stað. En ökumenn hafa stundum verið staðnir að því að spilla sönnunargögnum með því að hella í sig áfengi eftir að hafa valdið slysi og enginn getur þá sannað á þá að þeir hafi verið drukknir þegar slysið varð. Því þarf að leggja bann við því að viðkomandi neyti áfengis í sex klukkutíma eftir að slys sem hann olli átti sér stað.

Herra forseti. Fulltrúi Sjóvár-Almennra sagði að mikilvægast væri að málið kæmist á hreyfingu og að það yrði tekið fyrir á haustþingi.