Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:23:05 (5080)

1998-03-24 15:23:05# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst út af því síðasta sem hér kom fram um það að ég hefði kynnt þessa breytingu eftir að hæstv. dómsmrh. hefði boðað þessa nefndarskipan, þá finnst mér það nú ekki skipta öllu máli. En til að halda öllu til haga í þessu efni þá ber þess að geta að ég hafði kynnt þetta í þingflokknum áður en hæstv. dómsmrh. tilkynnti þessa nefndarskipan sína.

Varðandi það að kalla saman fund í nefndinni, þá vil ég segja að hafi ég sagt aukafund --- ég held að ég hafi ekki gert það --- en hafi ég sagt aukafund þá bið ég forláts á því. Það hefur þá verið mismæli hjá mér ef ég hef talað um aukafund vegna þess að ég vil að þetta mál verði tekið upp á hefðbundnum fundi nefndarinnar strax í fyrrmálið ef það verður haldinn fundur. Það er langur fundur allan daginn og því ættum við að geta tekið málið upp þannig. Mér finnst mjög sérkennilegt ef hv. þingmenn neita þessu ágæta boði. Þau hafa lagt áherslu á að þetta færi til umsagnar úti í þjóðfélaginu. Ekki skal standa á mér að stuðla að því. En þegar fram kemur tilboð um það þá er því neitað og enn og aftur vísað í nefndarskipunina hjá embættismönnunum. Þau geta ekki hreyft sig í málinu fyrr en komið er grænt ljós frá embættismönnum. Þetta er mjög sérkennileg staða sem hér er upp komin, herra forseti.