Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:25:40 (5082)

1998-03-24 15:25:40# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú ber hv. þm. því fyrir sig að það séu svo mörg mál í allshn. og þess vegna sé ekki hægt að fjalla um þessa tillögu. Ég ætla að minna hv. þm. á að fimmta hvert banaslys í umferðinni má rekja til ölvunar og árlega eru 2.000--2.500 manns teknir vegna gruns um ölvun. Að mínu mati, og ég vona að hv. þm. sé sammála mér um það, má víkja mörgum þeirra mála sem eru í allshn. til hliðar, stjfrv. ýmiss konar sem ekkert liggur á að afgreiða, til að þetta mál geti haft þar ákveðinn forgang og fengið þá umfjöllun og meðferð sem hv. þingmenn óska eftir. En nú er því borið við að þar séu svo mörg mál til umfjöllunar að ekki sé hægt að taka þetta mál þar til meðferðar þó við höfum tölurnar fyrir framan okkur um árlegan fjölda, þúsundir manna sem eru teknar vegna gruns um ölvun við akstur. Auðvitað á þetta mál að hafa þarna ákveðinn forgang. Ég fer fram á það, herra forseti, að þetta verði fyrsta málið sem verði tekið upp á fundi allshn. á morgun og atkvæðagreiðslu verði frestað um frv. og þessa brtt. til þess að fullnægja þeim óskum sem fram hafa komið hjá stjórnarliðum sjálfum.