Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:45:08 (5090)

1998-03-24 15:45:08# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:45]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi setning sem ég hef sagt hér aftur og aftur --- hverra hagsmuni er verið að verja? --- hefur ekki að ástæðulausu verið sögð. Þessi setning kom fram í máli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur áðan. Ég skrifaði hana eftir henni vegna þess að þetta vakti athygli mína. Hún sagði: Þetta mál snertir hagsmuni margra. Þetta olli mér miklum heilabrotum. Hverra hagsmuni þarf að verja í þessu máli?

Hæstv. ráðherra spurði: Hvers vegna ekki að skoða þetta með sérfræðingum? Ég veit ekki betur en sérfræðingar séu búnir að skoða þetta heilmikið og ég bara spyr: Hvers vegna hefur þetta ekki miklu fyrr verið skoðað með sérfræðingum? Það er búið að fjalla, sem betur fer, um umferðarmál, um breytingu á umferðarlögum mánuðum saman og það vekur furðu mína ef sérfræðingar hafa ekki rætt þetta í allri þeirri umfjöllun. Þess vegna er mín spurning sú: Hvers vegna ekki miklu fyrr?