Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:47:50 (5092)

1998-03-24 15:47:50# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:47]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hæstv. dómsmrh. séum innilega sammála um þetta. Ég er talsmaður vandaðra vinnubragða, svo sannarlega. Hann talaði um meginstefnuna í Evrópu og það er sjálfsagt að taka mið af því sem er að gerast í nágrannalöndum okkar, en nú höfum við t.d. reynsluna í Svíþjóð að miða við. Við vitum líka að ölvunarakstur hefur lengi verið eitt af stærstu vandamálunum í sambandi við umferðarmál. Það er mikið böl sem menn hafa lengi verið að velta fyrir sér hvernig eigi að taka á, og þess vegna furða ég mig á því að þetta skuli vera að koma upp núna, við lokaafgreiðslu þessa máls. Ég furða mig á því. Ég hafði skilið það svo að læknar hefðu sent þau skilaboð frá sér út í þjóðfélagið að þarna þyrfti að verða á breyting og þess vegna hélt ég að sérfræðingar hefðu svo sannarlega sagt sitt í þessu máli.