Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:49:06 (5093)

1998-03-24 15:49:06# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:49]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að verða heilmikil umræða um áfengi og akstur, sem við erum öll sammála um að fari ekki saman. Við erum öll sammála um að fordæma ölvunarakstur og þau slys sem hljótast af því að menn neyta áfengis og aka síðan bíl. En það má auðvitað spyrja: Hvers vegna er ekki búið að lækka mörkin löngu fyrr? Vegna þess að þetta er og hefur verið talið álitamál. Þess vegna skipar hæstv. dómsmrh. starfshóp sérfræðinga til að vinna í málinu til að Alþingi geti tekið skynsamlega ákvörðun og að við færum okkur niður með mörkin. Mér finnst fljótt á litið og hef lýst því hér í stólnum aftur og aftur í dag að eðlilegt sé og skynsamlegt að fara niður í núllið eða 0,2 prómill með frávikinu með mörkin, en ég vil fá röksemdirnar frá þeim sem gerst þekkja til og eru sérfræðingar á þessu sviði og síðan tökum við á hinu háa Alþingi ákvörðun í málinu. Ég vil því nýta vinnu þess hóps við lagasetninguna sem hæstv. dómsmrh. hefur skipað.