Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:56:16 (5099)

1998-03-24 15:56:16# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:56]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir undirstriki það einmitt að ágreiningur er meðal hv. þm. um þetta mál. Ég vil líka láta það koma fram sem bent var á í allshn. þegar þetta mál var rætt og það var vissulega rætt í allshn., að það sem væri aðalatriðið í sambandi við ölvunarakstur væri hert eftirlit og tvennt skipti mestu máli í því sambandi. Það væri aukin löggæsla og öflugur áróður. Þetta væri aðalatriðið sem forvörn í þessu sambandi. En að sjálfsögðu erum við tilbúin að láta skoða fleiri leiðir m.a. hvort þörf sé á að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði. En það eru líka fleiri atriði eins og bent var á í bréfi Læknafélagsins og dómsmrn. svaraði, og ég gat um áðan. Við teljum því rétt að allir þessir þættir séu skoðaðir í samhengi svo við náum sem bestum árangri.